Á endanum varð ég miklu betri

Ingólfur Sigurðsson, rafíþróttamaður.
Ingólfur Sigurðsson, rafíþróttamaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ingólfur Sigurðsson, einnig þekktur sem ILO, er 22 ára gamall Overwatch-leikmaður en hann æfir og keppir með XY Esports sem hampaði 4. sæti í Almenna Bikarnum.

Samhliða því að iðka rafíþróttir starfar Ingólfur sem tækniteiknari hjá Ými Technologies, en þá hefur hann kvöldin til þess að sækja æfingar með liðinu.

Æfingar fara fram þrisvar til fimm sinnum í viku en þá er liðið ýmist að spila eða að skoða myndbönd og endurspil af leikjum með þjálfaranum. XY er með æfingaaðstöðu í Garðabænum þar sem liðið hittist og spilar saman.

Fylgt honum í tuttugu ár

Spurður út í rafheitið ILO, segir Ingólfur nafnið hafa fylgt honum í tuttugu ár, eða frá því að hann var tveggja ára gamall.

„Það er nafnið sem öll fjölskyldan mín notar um mig, en það kemur frá því að ég var tveggja ára gamall að reyna að segja nafnið mitt. Ég sagði bara „íló“ og það hefur verið fast við mig síðan,“ segir Ingólfur í samtali við mbl.is.

„Það merkir líka gleði á finnsku, en ég bjó í Finnlandi á þessum tíma.“

Staðráðinn í að bæta sig

Ingólfur segist standa í þakkarskuld við stóra frænda sinn Ingimar, en hann segir frænda sinn eiga þátt í því að hann sé í rafíþróttum í dag.

Þeir frændur voru vanir að gista saman og þá var eytt ófáum kvöldum í að spila tölvuleiki og skemmta sér, sem vakti upp keppnisskap Ingólfs.

„Hann er talsvert eldri en ég og þegar við spiluðum tölvuleiki sýndi hann enga miskunn og gjörsamlega rústaði mér í öllu sem við spiluðum. Það vakti upp keppnisskapið í mér og ég var staðráðinn í því að æfa mig og verða betri svo ég gæti unnið hann.“

„Á endanum, varð ég miklu betri og hélt sama samkeppnis-hugarfari.“

Sérstök dýpt í Overwatch

Það kemur því engum á óvart að uppáhaldsleikur Ingólfs sé Overwatch, sem er keppnisbundinn liðaleikur sem hægt er að spila á marga vegu.

Þá stendur hvert lið saman af fimm leikmönnum sem leggjast til atlögu við annað lið, en hver leikmaður velur sér hetju til spilunar áður en bardagi hefst.

„Hann er með einhverja dýpt og kenningar sem ég hef enn ekki séð neinn annan leik komast nálægt því að áorka.“

Úr flippi í stífar æfingar

Ingólfur hafði spilað Overwatch í einhvern tíma með vinum sínum þegar þeir sáu auglýsingu fyrir Almenna Bikarinn og ákváðu að skrá sig til leiks í íslensku keppnissenuna.

„Síðan þá hafa rafíþróttir stækkað gríðarlega mikið á mjög stuttum tíma, og komin miklu meiri alvara í þetta,“ segir Ingólfur.

Þar að auki nefnir hann að þetta hafi breyst úr því að vera „vinahópur að flippa“ yfir í „íþróttaklúbb sem æfir stíft og undirbýr sig vel fyrir leiki“.

Ingólfur Sigurðsson, rafíþróttamaður.
Ingólfur Sigurðsson, rafíþróttamaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slá járnið á meðan það er heitt

Rafíþróttasenan er búin að stækka gríðarlega mikið seinustu þrjú árin hér á Íslandi og segir Ingólfur starfsemina innan hennar vera bæði mikla og góða.

„Við erum að sjá krakka æfa rafíþróttir, stærstu mót heims eru haldin hér á landi, stórir íslenskir viðburðir eru haldnir og svo margt fleira.“

„Það sem ég myndi vilja gera, er bara að slá járnið á meðan það er heitt, setja pening í þetta, auglýsa, stækka þetta og sjá hversu langt við getum farið.“

Ingólfur er að eigin sögn frekar „ungur spilari“, en hann fékk sína fyrstu PC-tölvu fyrir tæpum þremur árum síðan, í lok árs 2019. Honum hefur samt tekist að bæta sig hratt og örugglega í Overwatch. Hefur hann það að markmiði að halda áfram að bæta sig og að spila á fleiri og stærri mótum.

Ógleymanlegar minningar og þakklæti

Ljóst er að heimur rafíþrótta hafi fangað hug Ingólfs og segist hann jafnframt eiga margar frábærar minningar þaðan.

„Það sem stendur mest upp úr er persónulegt afrek hjá mér, þegar ég náði 4400 skill rating og komst á lista yfir tuttugu bestu spilara í Evrópu,“ segir Ingólfur en bætir við að fyrsta mótið sem hann og félagar tóku þátt í sem lið hafi verið ógleymanlegt.

Að lokum þakkar Ingólfur kærustunni sinni sérstaklega fyrir alla þá þolinmæði sem hún hefur sýnt honum og fyrir þann skilning sem hún sýnir honum og spilamennskunni.

Hægt er að fylgjast með Ingólfi á Twitch-rásinni ilo_ow, en hann streymir þar reglulega í góðri stemningu með áhorfendum.

Hvaða lið vinnur stórmótið í CS:GO?

  • Natus Vincere
  • Fnatic
  • Heroic
  • Vitality
  • G2
  • FaZe
mbl.is