Þrír aukapakkar á leiðinni fyrir Sims 4

Mynd af leiðarvísi Sims 4 fyrir júlí og september.
Mynd af leiðarvísi Sims 4 fyrir júlí og september. Grafík/Maxis

Maxis birti mynd af litlum leiðarvísi fyrir tölvuleikinn Sims 4 á samfélagsmiðlum sínum og eru netverjar nú þegar farnir að velta fyrir sér hvað sé í vændum.

Fyrri leiðarvísirinn var nokkuð drungalegur og notaði Maxis slagorðið „stígðu inn í tunglsljósið“ um hann. Sá leiðarvísir fól í sér þrjá aukapakka, þá tvo efnispakka og einn leikjapakka. 

Nýr dagur í Sims 4

Nú hefur Maxis birt nýjan leiðarvísi fyrir aukapakka og uppfærslur sem væntanlegar eru í júlí og september. 

„Ertu tilbúinn í nýjan dag og nýtt tímabil með The Sims?“ stendur undir myndinni af leiðarvísinum á meðan „rísa og skína“ stendur í honum sjálfum.

Samkvæmt leiðarvísinum eru þrír aukapakkar á leiðinni, þá tveir efnispakkar og einn stór aukapakki.

Alltaf einhverjar vísbendingar

Maxis er gjarnt á að gefa upp vísbendingar áður en leikirnir eru opinberaðir og leyfa netverjum að velta komandi leikjum fyrir sér. Framleiðsluverið bregður ekki út af vananum í þetta skiptið.

Vísbendingar um komandi pakka eru að finna í leiðarvísinum í formi smámynda. Netverjar velta því meðal annars fyrir sér hvort um nýjan háskólapakka sé að ræða, en nánari upplýsingar fást síðar.

mbl.is