Leikjaranum heldur en ekki brugðið

Leikjarinn
Leikjarinn Grafík/Leikjarinn

Streymandinn og tölvuleikjaspilarinn Birkir Fannar, einnig þekktur sem Leikjarinn, var heldur en ekki hissa í gær þegar hann var að streyma frá Warthunder.

Leikjarinn var að streyma frá Warthunder í rólegheitum þegar framleiðsluverið á bakvið leikinn, Gaijin, hýsti streymið hans á opinberu Twitch-rás leiksins.

„Ég var bara að hlusta á hlaðvarp og að fljúga þegar búmm! Warthunder-rásin sjálf hýsti streymið mitt,“ segir Leikjarinn í samtali við mbl.is og bætir við að þetta hafi verið frekar klikkað.

Hafði ekki verið í beinni lengi

Kom þetta honum mjög á óvart þar sem hann var að streyma þannig að hann bjóst ekki við neinum áhorfendum, og hafði ekki verið í beinni útsendingu í nokkrar vikur.

„Ég ákvað bara að vera í beinni, hlusta á hlaðvarp og gera eitthvað sem ég myndi gera offline, svo ákvað ég að vera með kveikt á vefmyndavélinni líka, afhverju ekki ?

Svo akkúrat þegar þeir voru að velja, voru þeir að leita að einhverjum sem var með vefmyndavél og þeir fundu mig í þessu hafi af streymöndum.“

Leikjarinn segist ekki hafa getað búist við þessu, en við þetta komu 600 manns og fylgdust með streyminu hans.

Warthunder hýsti streymið hans Birkis Fannars, en hann er einnig …
Warthunder hýsti streymið hans Birkis Fannars, en hann er einnig þekktur sem Leikjarinn. Skjáskot/Leikjarinn

Var að fara að hætta

Fyrir þetta hafði Leikjarinn verið búinn að streyma í um klukkustund og var við það að fara slökkva á streyminu. Vegna þessa ákvað hann þó að halda streyminu gangandi og var í beinni í um þrjár klukkustundir til viðbótar.

„Þannig að já, ég held að þetta sanni að það geti allt gerst þegar þú ferð í beina útsendingu.“

Þegar hann var að fara að hætta, þá segir hann að það hafi verið mjög gaman að finna annan streymanda til þess að taka við streyminu. Það voru um 170 manns eftir og ákvað hann að fara með þá áhorfendur til einhvers sem var aðeins með um sex áhorfendur.

Gaman að gefa það áfram

„Það var ótrúlega gaman að fara með þetta til einhvers sem bjóst ekki við þessu, og hann bjóst ekki við þessu! Það var alveg sama með mig þegar þetta kom til mín, ég bjóst ekki við þessu.“

Það gefur augaleið að þetta hafi verið mjög óvænt en ánægjuleg reynsla og segir Leikjarinn áhorfendurna alla hafa verið mjög heiðarlega og skemmtilega og þar að auki fékk hann um 300 til 400 fylgjendur fyrir vikið.

Leikjarinn segir að hann hlakki mest til að vera kominn með enn hærri hóp reglulegra áhorfenda til þess að geta komið öðrum streymendum á óvart með því þessu móti. Þá fært áhorfendur sína yfir á aðra rás þegar hann er að fara að slökkva á sínu streymi.

„Ég hlakka mest til þegar ég er með mikið af fólki að horfa á mig í endann, streymið er að verða búið, og fara og láta einhvern annan fá áhorfendurna. Make his day.

Það er geggjað, að sjá einhvern sem er ekki með neinn að horfa á sig, og svo eru bara allir mættir!“

Hagkvæmt fyrir fyrirtæki

Fyrir utan að geta glatt aðra með þessu móti bendir hann á að þarna liggi einnig tækifæri fyrir indie-fyrirtæki. Þá geta slík fyrirtæki gefið streymendum tækifæri á að spila leikina sína og komið sér betur á framfæri, en að það sé annað mál.

„Náttúrulega líka þegar maður er með 50 til 100 manns að horfa á sig, er tækifæri fyrir indie-fyrirtæki að gefa manni séns á að spila leikina þeirra. Það getur gert mjög mikið með öllum þessum áhorfendum, en það er náttúrulega annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert