Sýna frá hæfileikum Hunter og Rogue

World of Warcraft.
World of Warcraft. Grafík/Activision Blizzard

Blizzard deilir fleiri upplýsingum um World of Warcraft Dragonflight með því að sýna frá hæfileikatrjám Hunter- og Rogue-klassanna.

Í síðustu viku greindi Blizzard frá breytingum á uppbyggingu persóna í Dragonflight og sýndi frá hæfileikatrjám Priest-klassans, en breytingarnar fela meðal annars í sér nýtt hæfileikatré.

Veita innsýn í Huntera og Roguea

Nú hefur Blizzard greint frá breytingum á hæfileikum Huntera og Roguea ásamt því að hafa sýnt frá hæfileikatrjám þeirra með bloggfærslu.

Nokkrir sérhæfðir hæfileikar Huntera, eins og Serpent Sting og Explosive Shot, verða ekki lengur hluti af sérhæfingu persónunnar heldur verða færðir yfir í grunnhæfileika-tréð.

Að sama skapi verða hæfileikar eins og Wailing Arrow frá Rae'shalare, Sylvanas Legendary Bow og Fury of the Eagle frá Survival Hunter's Artifact Weapon, Talonclaw, færðir yfir í sérhæfingatréð.

„Við erum ánægð með hvernig Hunterar eru spilaðir í heildina, og vonum að nýju möguleikarnir geri ykkur kleift að leggja áherslu á og byggja persónuna ykkar í kringum þá hæfileika sem skipta ykkur mestu máli við spilun,“ segir Blizzard.

Vendetta skipt út

Fjöldi samsetninga og hæfileika sem áður voru ekki í boði fyrir Rogue-klassann verða í boði í Dragonflight. Þá verða sumir sérhæfðir hæfileikar aðgengilegir öllum Rogueum í gegnum klassatréð ásamt fleiri tækifærum í sambandi við sérhæfingu persónunnar.

Það hefur einnig verið átt við nokkra hæfileika Roguea, bæði hæfileika sem eru til staðar í leiknum í dag ásamt eldri hæfileikum sem snúa aftur. Þar að auki munu Roguear öðlast nýja hæfileika fyrir leikmenn til þess að spreyta sig á.

Leikmenn sem þekkja Assassination-sérhæfinguna munu koma auga á að Vendetta verður ekki á meðal aðgengilegra hæfileika eða hæfileika sem lærast með hækkun reynsluþrepa. Nýr hæfileiki, Deathmark, kemur í stað hans og vonar Blizzard að hann muni hafa meiri áhrif og fela í sér meira en bara aukinn skaða.

Enn í þróun

Nánar um hæfileika þessa klassa og hæfileikatrén má lesa í færslunni, en þar tekur Blizzard einnig skýrt fram að þetta sé enn í þróun og einhver atriði gætu því breyst við útgáfu.

Fyrirtækið vonar að leikmenn hafi gaman af þessu sýnishorni og hiki ekki við að tjá sig um breytingarnar.

Dragonflight kemur út síðar á þessu ári en hægt er að tryggja sér eintak af honum nú þegar með því að kaupa hann í forsölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert