Íslendingi boðinn skólastyrkur fyrir Overwatch

Arnaldur Ingi Stefánsson, einnig þekktur sem Futhark, á sýningarleik (e. …
Arnaldur Ingi Stefánsson, einnig þekktur sem Futhark, á sýningarleik (e. showmatch) í París síðastliðinn mars. Ljósmynd/Aðsend

Íslenskur rafíþróttamaður, Arnaldur Ingi „Futhark“ Stefánsson, vakti athygli Waldorf-háskólans í Iowa og fékk boð um skólastyrk í beinu framhaldi.

Arnaldur er 21 árs gamall Overwatch-leikmaður og hefur náð góðum árangri hér á landi sem og erlendis. Vert er nefna að hann spilar núna fyrir hönd Íslands í Overwatch með landsliðinu, Beau Monde Cohort.

Vildu fá hann í liðið

Fyrir skömmu síðan fékk Arnaldur óvænt skilaboð frá rafíþróttaþjálfara skólans þar sem hann sagðist vilja fá hann til liðs við sig og bauð Arnaldi skólastyrk ef hann væri til í að spila með þeim.

„Fyrir um tveimur mánuðum síðan fékk ég skilaboð í gegnum Discord frá rafíþróttaþjálfara skólans, hann hafði eitthvað heyrt um mig og vildi bjóða mér skólastyrk til þess að koma og spila fyrir Waldorf,“ segir Arnaldur í samtali við mbl.is.

„Tilboðið var einfaldlega mjög gott og ég þáði það.“

Búið að vera á planinu

Arnaldur hefur um nokkurn tíma stefnt á að fara út í nám til Bandaríkjanna og hefur því aðeins kynnt sér Collegiate-rafíþróttasenuna í Overwatch.

„Ég tel það að geta keppt í rafíþróttum á sama tíma og ég er að halda áfram með menntun mína vera fullkomið fyrir mig,“ segir Arnaldur.

Þá mun læra bæði ensku og skapandi skrif í Waldorf og jafnframt búa þar á heimavist með öðrum nemendum.

Fyrstu mánuðina mun Arnaldur nýta í að koma sér fyrir, aðlagast náminu og undirbúa sig fyrir stærri mót vorannarinnar í háskóladeildinni.

Vann Eurocup Evrópumótið

Sem fyrr segir hefur Arnaldur náð góðum árangri og hefur hann spilað með íslenska landsliðinu í góðan tíma þrátt fyrir ungan aldur. Fyrir þremur árum síðan fóru þeir t.d. erlendis og kepptu á heimsmeistaramóti fyrir hönd Íslands eftir að hafa unnið Eurocup Evrópumót.

„Bara það eina að fara út og spila á heimsmeistaramóti fyrir landið þitt er ógleymanleg upplifun, jafnvel þó við náðum ekki langt,“ segir Arnaldur.

„Þar að auki unnum við líka Eurocup Evrópumótið áður en við fórum út, þar sem við sigruðum meðal annars gríðarsterku lið Þýskalands og Danmerkur. Án efa stærsta mót sem ég hef sjálfur unnið.“

Stefnir á að snúa aftur heim

Arnaldur segir námsferilinn vera efst í huga hans eins og er og stefnir á að snúa aftur heim að námi loknu. Óhætt er að segja að spennnandi tímar séu framundan hjá honum.

„Ég mun lang líklegast snúa aftur til Íslands að námi loknu nema að plön mín breytast eitthvað gríðamikið.“

„Ég er fyrst og fremst að hugsa um námsferilinn minn í augnablikinu, en við verðum bara að sjá til hvað gerist býst ég við. Þetta mun án efa vera töluvert mikilvægt reynsla fyrir mig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert