Taka upp atriði í anda gamla GameTíví

Óli Jóels, Dói Critcal, Kristján Einar og Tryggvi í GameTíví …
Óli Jóels, Dói Critcal, Kristján Einar og Tryggvi í GameTíví eru komnir aftur á skjáinn eftir sumarið. Skjáskot/Twitch/GameTíví

Haustið er rétt handan við hornið og hefur GameTíví snúið aftur á skjáinn eftir sumarfrí.

Í gær fór fyrsti þáttur Mánudagsstreymsins í loftið eftir sumarfrí, þar skemmta Óli Jóels, Dói Critical, Tryggvi og Kristján Einari áhorfendum í beinni útsendingu.

Þá fóru þáttastjórnendur til dæmis yfir helstu fréttir úr tölvuleikjaheiminum, skoðuðu myndir úr sumarfríinu og fóru af stað með spurningakeppni.

Í anda gamla GameTíví

Sömu þættir og voru á dagskránni fyrir sumarfrí halda áfram í haust en búast má við atriðum sem minna á gömlu GameTíví-þættina ásamt því meira fjöri í komandi þáttum.

„Það verða sömu þættir áfram hjá okkur og við ætlum bara að bæta í fjörið frá því sem var,“ segir Óli Jóels í samtali við mbl.is.

„Til dæmis vorum við í GameTíví í stúdíói í gær og ætlum að halda því áfram, ásamt því að vera með fasta liði eins og fréttir, spurningaleiki og spurningu vikunnar. Blanda inn nokkrum atriðum eins og þau voru í gömlu GameTíví-þáttunum.“

Snúa aftur á næstu dögum

Dagskráin verður komin á fullt í næstu viku en nokkrir þættir snúa aftur í þessari viku.

Babe Patrol munu taka upp fjarstýringarnar á miðvikudagskvöldið og Queens á sunnudagskvöldið en Gameveran snýr aftur í byrjun næsta mánaðar.

Hér fyrir neðan má horfa á endursýningu af Mánudagsstreyminu en það er einnig að finna á Twitch-rás GameTíví.

mbl.is