Byggja kappakstursbraut umhverfis höllu Ceausescu í Búkarest

Framhlið hinnar miklu glæsihallar Ceausescu í Rúmeníu.
Framhlið hinnar miklu glæsihallar Ceausescu í Rúmeníu.

Yfirvöld í Búkarest, höfuðborg Rúmeníu, hafa ákveðið að byggja kappakstursbraut umhverfis höllu þá sem einræðisherrann Nicolae Ceausescu lét reisa sér í borginni og nær m.a. níu hæðir niður í jörðina.

Brautin verður 3,1 kílómetra löng og segir borgarstjórinn Adrian Videanu að hún muni bera nafnið „Road City“. Byggð verður stúka gegnt höllinni og mun hún rúma 94.000 manns.

Hafist verður handa við byggingu brautarinnar og viðeigandi mannvirkja í haust. Ætlunin er að í henni fari fram mót í Evrópukeppni í götubílaakstri þegar á næsta ári.

Í höllinni er þing Rúmeníu hýst og einnig nýtt nýlistasafn.

mbl.is