Barcelona sendir frá sér yfirlýsingu varðandi Griezmann

Antoine Griezmann er ekki á leið til Barcelona.
Antoine Griezmann er ekki á leið til Barcelona. AFP

Forráðamenn spænska knattspyrnufélagsins Barcelona hafa gefið frá sér yfirlýsingu varðandi meint félagaskipti Frakkans Antoine Griezmann hjá Atlético Madrid til Barcelona. Spænsk dagblöð hafa mörg hver gert því skóna að Griezmann yrði orðinn leikmaður Barcelona innan skamms.

Barcelona þvertekur hins vegar fyrir það í yfirlýsingu á heimasíðu félagsins í dag.

„FC Barcelona neitar alfarið þeim upplýsingum sem hafa birst á undanförnum klukkustundum hjá mismunandi fjölmiðlum varðandi Antoine Griezmann, leikmann Atlético Madrid, og meintan samning hans við félagið okkar,“ segir meðal annars í yfirlýsingu félagsins.

Barcelona keypti Brasilíumanninn Philippe Coutinho frá Liverpool fyrr í þessum mánuði á 142 milljónir punda en hann fékk númerið 14 en ekki númerið sjö sem er laust og hefur það m.a. kynt undir þessar sögusagnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert