Alfreð fjórði Íslendingurinn

Alfreð Finnbogason fagnar marki fyrir Augsburg.
Alfreð Finnbogason fagnar marki fyrir Augsburg. AFP

Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður í knattspyrnu, náði mögnuðum áfanga í dag þegar hann kom Augsburg yfir gegn Nürnberg í leik liðanna í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu.

Alfreð skoraði þarna sitt 100. mark í deildakeppni erlendis og hann er aðeins fjórði íslenski knattspyrnumaðurinn í sögunni sem nær þeim stóra áfanga.

Markið skoraði Alfreð á 11. mínútu leiksins og hann hefur nú gert sex mörk í aðeins fimm leikjum með Augsburg í deildinni það sem af er þessu tímabili en hann missti af fyrstu fimm leikjunum vegna meiðsla. Leikurinn endaði 2:2 eins og frá var sagt fyrr í dag.

Þessi 100 mörk hefur Alfreð skorað í sex löndum og öll í efstu deild.

Alfreð gerði fyrst 4 mörk fyrir Lokeren í Belgíu á árunum 2011-2012.

Alfreð gerði 12 mörk fyrir Helsingborg í Svíþjóð árið 2012.

Alfreð gerði 53 mörk fyrir Heerenveen í Hollandi árin 2012-2014.

Alfreð gerði 2 mörk fyrir Real Sociedad á Spáni tímabilið 2014-2015.

Alfreð gerði eitt mark fyrir Olympiacos í Grikklandi árið 2015.

Alfreð hefur skorað 28 mörk fyrir Augsburg í Þýskalandi frá ársbyrjun 2016.

Heiðar Helguson skorar í leik með QPR.
Heiðar Helguson skorar í leik með QPR. Reuters

Heiðar er sá markahæsti

Eins og áður segir er Alfreð aðeins fjórði Íslendingurinn sem skorar 100 mörk í deildakeppni erlendis.

Íslandsmethafinn á þessu sviði er Heiðar Helguson sem skoraði 133 mörk fyrir Lillestrøm í Noregi og fyrir Watford, Fulham,  Bolton, QPR og Cardiff í ensku deildakeppninni á árunum 1998 til 2013.

Eiður Smári Guðjohnsen er í öðru sæti með 107 mörk sem hann skoraði fyrir PSV í Hollandi, Bolton, Chelsea og Tottenham á Englandi, Barcelona á Spáni, AEK í Grikklandi, Cercle Brugge og Club Brugge í Belgíu, Shijazhuang í Kína og Molde í Noregi á árunum 1995 til 2016.

Arnór Guðjohnsen er í þriðja sæti með 104 mörk sem hann skoraði fyrir Lokeren og Anderlecht í Belgíu, Bordeaux í Frakklandi og sænsku liðin Häcken og Örebro á árunum 1978 til 1998.

Alfreð fór fyrr í haust fram úr Ásgeiri Sigurvinssyni og í fjórða sætið. Ásgeir skoraði 96 mörk í deildakeppni fyrir Standard Liege í Belgíu og þýsku liðin Bayern München og Stuttgart á árunum 1973 til 1990.

Alfreð er fjórði markahæsti Íslendingurinn í þýsku 1. deildinni, Bundesligunni, á eftir Atla Eðvaldssyni, Ásgeiri Sigurvinssyni og Eyjólfi Sverrissyni.

mbl.is