Lærisveinar Lagerbäck fóru illa að ráði sínu

Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. AFP

Lars Lagerbäck og lærisveinar hans í norska karlalandsliðinu í knattspyrnu fóru illa að ráði sínu gegn Rúmenum í F-riðli undankeppni EM í knattspyrnu í kvöld.

Leiknum lyktaði með 2:2 jafntefli eftir að Norðmenn höfðu komist í 2:0. Tarik Elyounoussi og Martin Ödegaard skoruðu mörk Norðmanna en Claudiu Keseru tryggði Rúmenum jafntefli með því að skora tvö mörk á síðustu 22 mínútum leiksins.

Í sama riðli höfðu Svíar betur á móti Möltu 3:0. Robin Quaison, Viktor Claesson og Alexander Isak skoruðu mörk Svíanna.

Í Þórshöfn í Færeyjum töpuðu Færeyingar fyrir Spánverjum 4:1. Sergio Ramos, Jesus Navas og Jose Gaya skoruðu sitt markið hver fyrir Spánverja en eitt marka þeirra var sjálfsmark. Klæmint Olsen, lærsveinn Guðjóns Þórðarsonar hjá NSÍ, skoraði mark Færeyinga þegar hann minnkaði muninn í 2:1. Spánn er með 9 stig og fullt hús stiga, Svíþjóð er með 7 stig í öðru sæti og Rúmenía er í þriðja sæti með 4 stig. Norðmenn er í 5. og næst neðsta sætinu með aðeins tvö stig.

Í D-riðlinum gerðu Danir og Írar 1:1 jafntefli. Pierre-Emile Hoejbjerg kom Dönum í forystu á 76. mínútu en Shane Duffy jafnaði metin fyrir Íra fimm mínútum fyrir leikslok. Írar eru í toppsæti riðilsins með 7 stig eftir þrjá leiki en Danir hafa tvö stig eftir tvo leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert