Setur spurningamerki við formið á Coutinho

Philippe Coutinho var mættur á sínu fyrstu æfingu með Bayern …
Philippe Coutinho var mættur á sínu fyrstu æfingu með Bayern München í morgun. AFP

Niko Kovac, knattspyrnustjóri Bayern München, staðfesti það á blaðamannafundi í dag að nýjasti leikmaður liðsins, Philippe Coutinho, myndi ekki spila með Bæjurum þegar liðið heimsækir Schalke í annarri umferð þýsku 1. deildarinnar á morgun.

Kovac er ekki ánægður með leikform brasilíska sóknarmannsins og segir að hann sé ekki í nægilega góðu standi til þess að byrja leikinn. „Það vantar ennþá eitthvað upp á það að hann sé klár til þess að spila,“ sagði þjálfarinn í samtali við þýska fjölmiðlamenn.

„Hann er sjálfur meðvitaður um það að hann er ekki í góðu leikformi, hann tjáði okkur það þegar hann kom, og við sáum það sjálfir í dag. Við munum taka okkur góðan tíma í að gera hann kláran og við munum ekki drífa okkur um of að henda honum í byrjunarliðið,“ sagði Kovac.

mbl.is