Müller er hundfúll

Thomas Müller.
Thomas Müller. AFP

Thomas Müller, framherji þýska meistaraliðsins Bayern München, er ekki sáttur við hlutskipti sitt hjá liðinu og vill komast í burtu frá félaginu þegar opnað verður fyrir félagaskipti á nýjan leik í janúar.

Müller, sem er 30 ára gamall, hefur komið við sögu í tíu leikjum með Bæjurum í öllum keppnum á leiktíðinni en í helming leikjanna hefur hann komið inná sem varamaður.

„Ég er nýorðinn þrítugur, mér líður vel og mig hungrar í að ná árangri, bæði með liðinu og persónulega. Ég er sannfærður um að ég geti hjálpað liðinu með mínum eiginleikum inni á vellinum. Ef þjálfarateymið lítur á mig sem varamann í framtíðinni verð ég að hugsa mína stöðu,“ segir Müller við þýska blaðið Kicker.

Sky í Þýskalandi greinir frá því að forráðamenn Bayern München ætli ekki að leyfa Müller að fara frá félaginu í janúar en hann á tvö ár eftir af samningi sínum. Müller hefur átta sinnum orðið þýskur meistari með Bayern og bikarmeistari fimm sinnum.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert