Var sofið á verðinum?

Lucas Ocampos leikmaður Sevilla og Tono leikmaður Levante í leik …
Lucas Ocampos leikmaður Sevilla og Tono leikmaður Levante í leik liðanna á dögunum. AFP

Niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar í Skotlandi benda til þess að endurtekin höfuðhögg í knattspyrnu hafi alvarlegar afleiðingar. Niðurstöðurnar eru í það minnsta þær að knattspyrnumenn séu líklegri til að fá taugasjúkdóma og líklegri til að látast úr heilabilun, meira að segja mun líklegri en þeir sem ekki stunda knattspyrnu af kappi. Niðurstöðurnar eru ekki skemmtilegar fyrir knattspyrnuheiminn en eru ekki annað en vísbending að svo stöddu. Rannsóknin kallar á fleiri rannsóknir þar sem hægt væri að njörva hætturnar betur niður.

Rannsóknin var viðamikil og þannig að henni staðið að mark er á henni takandi. Fram til þessa hafa ekki verið gerðar margar umfangsmiklar rannsóknir á knattspyrnufólki hvað varðar hættuna á heilabilun. Algengara hefur verið að rannsakaðar séu afleiðingar höfuðhögga í öðrum íþróttagreinum, eins og í ameríska fótboltanum vestan hafs eða í íshokkí í Svíþjóð svo dæmi séu tekin.

Vel að verki staðið

Í rannsókninni voru sjúkraskrár og dánarorsök 7.676 atvinnumanna í knattspyrnu í Skotlandi, sem fæddir eru frá árinu 1900 til 1976, skoðaðar annars vegar og sambærilegar upplýsingar um 23.028 almenna borgara hins vegar. Í samanburðinum var þess gætt að bera saman menn á svipuðum aldri og úr svipuðum félagslegum aðstæðum. Dr. William Stewart, sérfræðingur í taugasjúkdómum, stýrði rannsókninni en nöfn fimm annarra fræðimanna og lækna fylgja niðurstöðunum. Stewart þessi sá um krufningu á líki Jeff Astle, fyrrverandi landsliðsmanns Englands, í janúar 2002. Astle lést 59 ára að aldri og hafði heilabilun þá hrjáð hann um fimm ára skeið. Stewart komst þá að þeirri niðurstöðu að Astle hefði látist úr langvarandi heilakvilla (CTE, chronic traumatic encephalopathy). Segja má að málið hafi þá komist á dagskrá í knattspyrnuheiminum á Bretlandseyjum, en ástvinir Astle tjáðu sig nokkuð um örlög hans opinberlega.

Margar stofnanir og sjúkrahús í Glasgow komu að rannsókninni og var hún styrkt af knattspyrnusambandinu í Skotlandi og leikmannasamtökunum þar í landi.

Ítarlega umfjöllin um málið má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert