Ramsey skaut Wales á EM - Wijnaldum með þrennu

Leikmenn Wales fögnuðu af krafti í kvöld.
Leikmenn Wales fögnuðu af krafti í kvöld. AFP

Wales tryggði sér í kvöld sæti í lokakeppni EM karla í fótbolta með 2:0-heimasigri á Ungverjalandi. Með sigrinum tryggði Wales sér annað sæti E-riðils og fara Slóvakía og Ungverjaland í umspil.

Aaron Ramsey skoraði bæði mörk Wales, það fyrra á 15. mínútu og það seinna á 47. mínútu. Króatía endar efst í riðlinum með 17 stig, Wales með 14, Slóvakía í þriðja með 13 og Ungverjaland í fjórða með 12 stig.

Georginio Wijnaldum skorar fyrsta markið sitt af þremur í kvöld. AFP

Belgía endar með fullt hús stiga í I-riðli. Belgíska liðið vann 6:1-stórsigur á Kýpur á heimavelli. Kýpur komst óvænt yfir á 14. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar var Christian Benteke búinn að jafna. Hann skoraði tvö mörk í leiknum, eins og Kevin De Bruyne.

Rússar, sem eru einnig komnir á EM, unnu sannfærandi 5:0-sigur á San Marínó í sama riðli og Skotar unnu 2:1-sigur á Kasakstan. Skotland fer í umspil.

Holland tryggði sér sæti á EM um helgina og Hollendingar fögnuðu áfanganum með 5:0-heimasigri á Eistlandi. Georginio Wijnaldum, leikmaður Liverpool, skoraði þrennu í leiknum og þeir Nathan Aké og Myron Boadu skoruðu einnig.

Serge Gnabry skoraði þrennu. AFP

Serge Gnabry, leikmaður Bayern München, skoraði þrennu fyrir Þýskaland sem lék sér að Norður-Írlandi á heimavelli. Leon Goretzka skoraði tvö mörk og Julian Brandt eitt mark. Þjóðverjar enda í toppsæti C-riðils með 21 stig, Holland í öðru með 19 og Norður-Írland í þriðja sæti með 13 stig og fer í umspil.

Riðlakeppninni er nú lokið og verður dregið í umspil á föstudag. Umspilið fer fram í mars og fær Ísland heimaleik í undanúrslitum. Takist Íslendingum að vinna, leikur liðið hreinan úrslitaleik um sæti í lokakeppninni. Verður dregið hvort liðið leikur heima eða að heiman í úrslitunum.

Úrslit kvöldsins í undankeppni EM:

Belgía - Kýpur 6:1
Þýskaland - Norður-Írland 6:1
Lettland - Austurríki 1:0
Holland - Eistland 5:0
Norður Makedónía - Eistland 1:0
Pólland - Slóvenía 3:2
San Marínó - Rússland 0:5
Skotland - Kasakstan 3:1
Slóvakía - Aserbaídsjan 2:0
Wales - Ungverjaland 2:0

Belgar skoruðu sex gegn Kýpur.
Belgar skoruðu sex gegn Kýpur. AFP
mbl.is