Ramsey skaut Wales á EM - Wijnaldum með þrennu

Leikmenn Wales fögnuðu af krafti í kvöld.
Leikmenn Wales fögnuðu af krafti í kvöld. AFP

Wales tryggði sér í kvöld sæti í lokakeppni EM karla í fótbolta með 2:0-heimasigri á Ungverjalandi. Með sigrinum tryggði Wales sér annað sæti E-riðils og fara Slóvakía og Ungverjaland í umspil. 

Aaron Ramsey skoraði bæði mörk Wales, það fyrra á 15. mínútu og það seinna á 47. mínútu. Króatía endar efst í riðlinum með 17 stig, Wales með 14, Slóvakía í þriðja með 13 og Ungverjaland í fjórða með 12 stig. 

Georginio Wijnaldum skorar fyrsta markið sitt af þremur í kvöld.
Georginio Wijnaldum skorar fyrsta markið sitt af þremur í kvöld. AFP

Belgía endar með fullt hús stiga í I-riðli. Belgíska liðið vann 6:1-stórsigur á Kýpur á heimavelli. Kýpur komst óvænt yfir á 14. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar var Christian Benteke búinn að jafna. Hann skoraði tvö mörk í leiknum, eins og Kevin De Bruyne. 

Rússar, sem eru einnig komnir á EM, unnu sannfærandi 5:0-sigur á San Marínó í sama riðli og Skotar unnu 2:1-sigur á Kasakstan. Skotland fer í umspil. 

Holland tryggði sér sæti á EM um helgina og Hollendingar fögnuðu áfanganum með 5:0-heimasigri á Eistlandi. Georginio Wijnaldum, leikmaður Liverpool, skoraði þrennu í leiknum og þeir Nathan Aké og Myron Boadu skoruðu einnig. 

Serge Gnabry skoraði þrennu.
Serge Gnabry skoraði þrennu. AFP

Serge Gnabry, leikmaður Bayern München, skoraði þrennu fyrir Þýskaland sem lék sér að Norður-Írlandi á heimavelli. Leon Goretzka skoraði tvö mörk og Julian Brandt eitt mark. Þjóðverjar enda í toppsæti C-riðils með 21 stig, Holland í öðru með 19 og Norður-Írland í þriðja sæti með 13 stig og fer í umspil. 

Riðlakeppninni er nú lokið og verður dregið í umspil á föstudag. Umspilið fer fram í mars og fær Ísland heimaleik í undanúrslitum. Takist Íslendingum að vinna, leikur liðið hreinan úrslitaleik um sæti í lokakeppninni. Verður dregið hvort liðið leikur heima eða að heiman í úrslitunum.  

Úrslit kvöldsins í undankeppni EM: 

Belgía - Kýpur 6:1
Þýskaland - Norður-Írland 6:1
Lettland - Austurríki 1:0 
Holland - Eistland 5:0
Norður Makedónía - Eistland 1:0
Pólland - Slóvenía 3:2
San Marínó - Rússland 0:5
Skotland - Kasakstan 3:1
Slóvakía - Aserbaídsjan 2:0
Wales - Ungverjaland 2:0

Belgar skoruðu sex gegn Kýpur.
Belgar skoruðu sex gegn Kýpur. AFP
mbl.is