Sama þótt ég hefði aldrei spilað fótbolta aftur

Ángel Di María leikur nú með PSG í Frakklandi.
Ángel Di María leikur nú með PSG í Frakklandi. AFP

Knattspyrnumaðurinn Ángel Di María segir Real Madríd hafa sent honum bréf og beðið hann um að spila ekki úrslitaleik HM 2014 í Brasilíu, þar sem Argentína og Þýskaland mættust. 

Di María var að glíma við meiðsli og hafði Real áhyggjur á að meiðslin yrðu verri ef hann myndi spila. Spænska félagið vildi selja hann eftir keppnina og hefði því hentað illa ef hann yrði lengi frá vegna meiðsla. 

Di María missti af leiknum við Holland í undanúrslitum og endaði á því að sitja á varamannabekknum allan tímann í úrslitaleiknum. Hann hundsaði hins vegar skilaboð Real Madríd og var í hópnum. 

„Ég meiddist á móti Belgíu í átta liða úrslitum en ég var 90 prósent klár og vildi bara spila. Mér var sama þótt ég hefði aldrei spilað fótbolta aftur. Ég vildi spila í úrslitaleiknum. Ég vissi að Real vildi selja mig og þess vegna fékk ég bréfið. Ég var fljótur að rífa það,“ sagði Di María við Telefe. 

Þýskaland vann leikinn 1:0 með marki Mario Götze í framlengingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert