Darmstadt í fimmta sætið

Guðlaugur Victor Pálsson og liðsfélagar hans í Darmstadt eru að …
Guðlaugur Victor Pálsson og liðsfélagar hans í Darmstadt eru að berjast í efri hluta þýsku B-deildarinnar. Ljósmynd/@sv98

Landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn á miðsvæðinu hjá Darmstadt þegar liðið vann útisigur gegn Aue í þýsku B-deildinni í dag. Leiknum lauk með 3:1-sigri Darmstadt en Fliroan Krüeger kom Aue yfir á 8. mínútu áður en Tobias Kempe jafnaði metin fyrir Darmstadt á 19. mínútu.

Serdar Dursun bætti svo við tveimur mörkum til viðbótar fyrir Darmstadt undir lok leiksins og Darmstadt fagnaði afar mikilvægum sigri. Darmstadt fer með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar og er nú með 42 stig, þremur stigum minna en Stuttgart, sem er í þriðja sæti deildarinnar og umspilssæti um sæti í efstu deild en Stuttgart á leik til góða á Darmstadt.

Þá var Rúrik Gíslason ekki í leikmannahópi Sandhausen sem vann 1:0-sigur gegn Wehen Wiesbaden en það var Dennis Diekmeler sem skoraði sigurmark leiksins á 45. mínútu. Sandhausen fer með sigrinum upp í þrettánda sæti deildarinnar í 33 stig og er nú fimm stigum frá Karlsruher sem er í sextánda sæti og umspilssæti um fall úr deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert