Stoltur af fyrsta bikarsigrinum

Eggert Gunnþór Jónsson er danskur bikarmeistari 2020.
Eggert Gunnþór Jónsson er danskur bikarmeistari 2020. Ljósmynd/aðsend

Knattspyrnumaðurinn Eggert Gunnþór Jónsson varð danskur bikarmeistari með liði sínu SønderjyskE á miðvikudaginn eftir 2:0-sigur gegn AaB frá Álaborg í úrslitaleik dönsku bikarkeppninnar sem fram fór í Esbjerg.

Eggert, sem er 31 árs gamall, lék sem miðvörður í leiknum en honum var skipt af velli á 63. mínútu eftir að hafa fengið gula spjaldið á 32. mínútu. Þetta er fyrsti stóri titillinn í sögu SønderjyskE en Eggert hefur leikið með liðinu frá árinu 2017.

„Við bjuggumst að sjálfsögðu við erfiðum leik enda eru þeir með virkilega gott lið,“ sagði Eggert Gunnþór í samtali við Morgunblaðið. „Úrslitin voru ekki búin að detta með þeim í undanförnum leikjum á meðan það hefur verið ágætisstígandi í leikjum okkar þar sem við höfum náð í góð úrslit.

Við mættum mjög vel stemmdir til leiks og með gott hugarfar líka. Þeir eru stærri klúbbur en við og ofar í töflunni líka en í bikarnum þá er það dagsformið sem skiptir mestu máli. Við mættum mjög tilbúnir til leiks og vissum upp á hár hvernig þeir ætluðu sér að spila leikinn.

Þegar leikplanið þeirra gekk ekki upp fannst mér þeir fara aðeins inn í skelina og þeir voru hálfráðþrota ef svo má segja. Heilt yfir fannst mér við vera betra liðið, þeir gerðu lítið og sköpuðu sér fá færi, og sigurinn var því bara sanngjarn þegar uppi var staðið.“

Hvatningin til staðar

SønderjyskE er ungt félag sem var stofnað árið 2004, þegar nokkur félög á Suður-Jótlandi voru sameinuð, og hafði, fram að leik miðvikudagsins, aldrei unnið stóran titil í knattspyrnunni.

„Það var mikil hvatning fyrir okkur fyrir leikinn, vitandi það að SønderjyskE hafði aldrei unnið stóran titil áður. Að sama skapi þarf lítið að hvetja mann áfram þegar það er bikar í boði og það var í sjálfu sér alveg næg hvatning fyrir leikmenn liðsins fyrir leikinn.“

Sjá viðtalið við Eggert Gunnþór í heild í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »