Skagamaðurinn gulltryggði sigurinn

Björn Bergmann Sigurðarson skoraði í dag.
Björn Bergmann Sigurðarson skoraði í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Bergmann Sigurðarson skoraði seinna mark Lilleström í dag þegar liðið bar sigurorð af Kongsvinger, 2:0, í norsku B-deildinni í knattspyrnu.

Þetta var annar leikur Björns eftir að hann sneri aftur til félagsins í haust en þar hóf hann atvinnuferilinn og spilaði með liðinu í norsku úrvalsdeildinni frá 2009 til 2012. Á þeim tíma gerði hann 17 mörk í 70 leikjum í deildinni.

Björn kom inn á  sem varamaður eftir klukkutíma leik í dag þegar staðan var 0:0 en mörkin komu á síðustu sex mínútum leiksins.

Lilleström komst með sigrinum í fjórða sæti deildarinnar með 29 stig en fyrir ofan eru Sogndal með 33, Tromsö með 32 og Ranheim með 30 stig. Það voru einmitt Lilleström, Tromsö og Ranheim sem féllu úr úrvalsdeildinni á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert