Heiðraður með 800 fermetra listaverki

Brasilíumaður tekur mynd af sér fyrir framan listaverkið af Pelé …
Brasilíumaður tekur mynd af sér fyrir framan listaverkið af Pelé í borginni Santos. AFP

Risastórt útilistaverk af Pelé, einum frægasta knattspyrnumanni sögunnar, hefur verið afhjúpað í brasilísku strandborginni Santos í tilefni þess að hann fagnar áttræðisafmæli sínu í dag.

Pelé 21 árs gamall fyrir heimsmeistarakeppnina í Síle árið 1962 …
Pelé 21 árs gamall fyrir heimsmeistarakeppnina í Síle árið 1962 þegar hann varð heimsmeistari í annað sinn. AFP

Pelé sló í gegn 17 ára gamall á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð árið 1958 en hann hafði byrjað að spila 15 ára með Santos og sextán ára með brasilíska landsliðinu. Í Svíþjóð varð hann yngstur til að spila úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar, 17 ára og 249 daga, og skoraði tvívegis í 5:2 sigri Brasilíumanna á Svíum.

Það var fyrsti heimsmeistaratitill hans af þremur en Pelé vann einnig HM með Brasilíu 1962 og 1970. Hann varð sex sinnum brasilískur meistari með Santos og tvisvar Suður-Ameríkumeistari, sem og óopinber heimsmeistari félagsliða 1962 og 1963 þegar Santos vann Evrópumeistara þessara ára, Benfica og AC Milan, í leikjum heima og heiman.

Pelé er markahæsti leikmaður brasilíska landsliðsins frá upphafi með 77 mörk í 92 landsleikjum en þau voru samtals 95 ef óopinberir landsleikir eru taldir með. Hann skoraði 643 mörk í 656 mótsleikjum með Santos og samkvæmt heimsmetabók Guinness á Pelé heimsmetið í markaskori á ferlinum með 1.283 mörk í 1.363 leikjum með landsliði og félagsliðum en þá eru taldir allir vináttu- og sýningarleikir sem voru margir á þeim árum. Skráð mörk í mótsleikjum hans með félagsliðum og landsliði eru 757 í 812 leikjum.

Pelé á heimaslóðum í Santos í síðustu viku þegar hann …
Pelé á heimaslóðum í Santos í síðustu viku þegar hann sendi frá sér ávarp á myndskeiði. AFP

Pelé lék mestallan ferilinn með Santos en lauk honum í Bandaríkjunum með New York Cosmos á árunum 1975 til 1977, þar sem hann skoraði 64 mörk í 107 leikjum.

Hann á fjölda annarra meta og er í dag einn þeirra fjögurra knattspyrnumanna sem flestir nefna sem þann besta í sögunni, ásamt þeim Diego Maradona, Lionel Messi og Cristiano Ronaldo.

Það er brasilíski graffiti-listamaðurinn Eduardo Kobra sem gerði listaverkið, brasilísku þjóðhetjunni til heiðurs. Verkið er um 800 fermetrar að stærð og Kobra var á þriðja mánuð að gera það klárt.

mbl.is