„Hlökkum til að sjá þann besta í Tórínó“

Lionel Messi verður í eldlínunni með Barcelona í Meistaradeildinni í …
Lionel Messi verður í eldlínunni með Barcelona í Meistaradeildinni í kvöld. AFP

Juventus tekur á móti Barcelona í stórleik Meistaradeildarinnar í knattspyrnu á Allianz-vellinum í Túrin í kvöld.

Mikil eftirvænting ríkir fyrir leiknum enda tvö af bestu liðum Evrópu að mætast en Cristiano Ronaldo er hins vegar ekki leikfær þar sem að hann er með kórónuveiruna.

Lionel Messi verður á sínum stað í byrjunarliði Barcelona en markaðsfulltrúar spænska félagsins voru byrjaðir að hita upp fyrir leikinn á Twitter í gær.

„Við hlökkum til að sjá þann allra besta á vellinum ykkar á morgun,“ sagði í Twitter-færslu Barcelona en með henni fylgdi myndband af Lionel Messi að skora gegn Juventus á Nývangi á Spáni.

Juventus-menn tóku vel í færslu Börsunga og birtu mynd af Paulo Dybala, sóknarmanni ítalska liðsins, þar sem þeir sögðust hrifnari af þeim ágæta örvfætta leikmanni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert