Real Madrid krækir í Evrópumeistara

David Alaba hefur skrifað undir fjögurra ára samning við Real …
David Alaba hefur skrifað undir fjögurra ára samning við Real Madrid samkvæmt Marca sem sérhæfir sig í málefnum Spánarmeistaranna. AFP

Knattspyrnumaðurinn David Alaba mun ganga til liðs við spænska stórliðið Real Madrid þegar samningur hans við Þýskalandsmeistara Bayern München rennur út næsta sumar.

Það er Marca sem greinir frá þessu en spænski miðillinn segir Alaba vera búinn að skrifa undir fjögurra ára samning við Spánarmeistarana.

Alaba, sem er 28 ára gamall, hefur verið orðaður við öll stærstu lið Evrópu, undanfarnar vikur, en hann tilkynnti það í desember að hann yrði ekki áfram í herbúðum Bayern München á næstu leiktíð.

Alaba er uppalinn hjá þýska félaginu en hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið árið 2010.

Alls á hann að baki 408 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 32 mörk og lagt upp önnur 49.

Hann hefur níu sinnum orðið Þýskalandsmeistari með liðinu, sex sinnum bikarmeistari og tvívegis Evrópumeistari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert