Ítalir fyrstir í sextán liða úrslitin - aftur þrjú mörk

Jorginho og Manuel Locatelli fagna eftir að sá síðarnefndi skoraði …
Jorginho og Manuel Locatelli fagna eftir að sá síðarnefndi skoraði annað mark sitt og Ítala í kvöld. AFP

Ítalir urðu í kvöld fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í sextán liða úrslitum Evrópumóts karla í fótbolta þegar þeir sigruðu Svisslendinga örugglega, 3:0, í annarri umferð riðlakeppninnar í Róm.

Þeir hafa þar með unnið báða sína leiki með þessari markatölu, hafa skorað sex mörk gegn engu og virðast til alls líklegir á þessu Evrópumóti.

Ítalir eru með 6 stig, Walesbúar 4, Svisslendingar eitt og Tyrkir ekkert. 

Manuel Locatelli skoraði fyrsta markið á 26. mínútu. Hann bætti öðru við á 52. mínútu og það var síðan Ciro Immobile sem innsiglaði sigurinn með marki á 89. mínútu.

mbl.is