Lagði upp tvö mörk í bikarnum - Viðar skoraði

Brynjólfur Willumsson lagði upp tvö.
Brynjólfur Willumsson lagði upp tvö. Ljósmynd/Jon Forberg

Brynjólfur Andersen Willumsson átti góðan leik fyrir Kristiansund og lagði upp tvö mörk er liðið vann 5:1-sigur á Tiller á útivelli í 2. umferð norska bikarsins í fótbolta í dag. Brynjólfur skoraði þrennu í fyrstu umferðinni.

Viðar Ari Jónsson kom inn á sem varamaður á 64. mínútu í óvæntu tapi Sandefjord gegn Arendal, 4:5, eftir framlengdan leik, og skoraði fjórða mark síns liðs í blálokin. Samúel Kári Friðjónsson lék síðasta hálftímann fyrir Víking sem vann Djerv 2:0. 

Emil Pálsson lék allan leikinn með Sarpsborg í öruggum 3:0-útisigri á Nordstrand. Björn Bergmann Sigurðarson er búinn að jafna sig á meiðslum og hann lék fyrstu 65 mínúturnar með Molde í 2:1-útisigri á Hödd. Alfons Sampsted lék fyrstu 88 mínúturnar með Bodø/Glimt í 3:1-sigri á Junkeren á útivelli.

Viðar Ari Jónsson skoraði.
Viðar Ari Jónsson skoraði. Ljósmynd/Sandefjord

Adam Örn Arnarson var allan tímann á bekknum hjá Tromsö sem tapaði óvænt fyrir Alta á útivelli, 1:3, og Hólmar Örn Eyjólfsson var allan tímann á bekknum hjá Rosenborg í 11:1-útisigri á Orkla.

Ari Leifsson var allan tímann á bekknum og Valdimar Þór Ingimundarson ekki í leikmannahópi Strømsgodset í 1:0-sigri á Ready. Viðar Örn Kjartansson lék ekki með Vålerenga vegna meiðsla í 3:1-sigri á Ullern á útivelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert