Meistararnir úr leik – Liverpool áfram

Leikmenn West Ham United fagna eftir að hafa slegið deildabikarmeistara …
Leikmenn West Ham United fagna eftir að hafa slegið deildabikarmeistara Manchester City úr keppni. AFP

Ríkjandi deildabikarmeistarar Manchester City eru úr leik í keppninni eftir að hafa tapað gegn West Ham United í vítaspyrnukeppni í 16-liða úrslitunum í kvöld.

Markalaust var að loknum venjulegum leiktíma og því var gripið til vítaspyrnukeppni. Þar skoraði West Ham úr öllum fimm spyrnum sínum á meðan Phil Foden klúðraði fyrstu spyrnu City.

Hamrarnir eru því komnir áfram í fjórðungsúrslitin.

Fjórir leikir til viðbótar fóru fram í 16-liða úrslitunum í kvöld.

Liverpool lagði Preston North End á útivellu, 2:0, með mörkum frá Takumi Minamino og Divock Origi. Bæði mörkin komu í síðari hálfleik.

Tottenham vann svo Burnley 1:0 á Turf Moor í Burnley þar sem Lucas Moura skoraði sigurmarkið um miðjan síðari hálfleik. Jóhann Berg Guðmundsson lék fyrstu 75 mínúturnar með Burnley.

Þá gerði Brentford góða ferð til Stoke-on-Trent og vann heimamenn í Stoke City 2:1. Sergi Canós og Ivan Toney skoruðu fyrir Brentford í fyrri hálfleik áður en Romaine Sawyers minnkaði muninn fyrir Stoke.

Einnig mættust Leicester City og Brighton & Hove Albion í hörkuleik í Leicester. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 2:2 eftir að Harvey Barnes og Ademola Lookman höfðu skoraði fyrir heimamenn en Adam Webster og Enock Mwepu jöfnuðu í tvígang fyrir Brighton.

Leicester hafði svo betur, 4:2, í vítaspyrnukeppni með því að skora úr öllum fjórum spyrnum sínum á meðan Neal Maupay og Mwepu klúðruðu tveimur af fjórum spyrnum gestanna.

West Ham, Liverpool, Tottenham, Brentford og Leicester fylgja því Arsenal, Chelsea og Sunderland í fjórðungsúrslit deildabikarsins.

mbl.is