Minni á að 20.000 manna höll í Búdapest var byggð á 18 mánuðum

Laugardalshöllin.
Laugardalshöllin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur B. Ólafsson, formaður Handknattleikssambands Íslands, HSÍ, kveðst ánægður með að stjórnvöld hafi undirritað viljayfirlýsingu um byggingu nýrrar þjóðarhallar í innanhússíþróttum í Laugardal. Áætlað er að fram­kvæmd­um við bygg­ingu hennar ljúki árið 2025.

„Ég fagna því að það sé komin samstaða um að byggja þjóðarhöll í Laugardal. Ég tel þetta vera mikinn og stóran áfanga í viðurkenningu á inniíþróttunum og að þetta muni hjálpa okkur við að geta staðið í fremstu röð í framtíðinni.

Þetta skapar okkur bæði möguleika á aukinni þátttöku í almennu alþjóðastarfi og eins við að auka áhuga á íþróttinni [handknattleik],“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is.

„Ég er bara virkilega ánægður, þetta er búið að vera meira en tíu ára vinna. Umræðan um byggingu þjóðarhallar kom fyrst upp þegar við héldum heimsmeistarakeppnina árið 1995. Þá var þetta slegið út af borðinu en við höfum verið að tala um þetta af alvöru síðastliðin tíu ár.

Ég er virkilega ánægður með að ríki og borg hafi komið sér saman um það að byggja nýja höll, sem ég held að sé mikið framfaraspor fyrir allar íþróttir sem eru stundaðar innandyra.

Þetta er eðlilegt framhald á Laugardalshöllinni sem er búin að þjóna okkur frá 1965, að það sé kominn tími á nýtt hús vegna nýrra krafna í alþjóðabolta. Við erum virkilega ánægð með að það hafi tekist samstaða um að byggja nýja þjóðarhöll,“ hélt hann áfram.

Ættum að geta þetta innan tímarammans

Spurður út í tímalínuna og hvort honum þætti það raunhæft að ný höll verði reiðubúin til notkunar árið 2025 sagði Guðmundur:

„Ég vona bara innilega að núna setjist menn niður og efni til hugmyndasamkeppni um bæði staðsetningu í Laugardalnum og hvernig hús við eigum að byggja til að byrja með, með möguleika á stækkun til framtíðar, svo það verði auðvelt að gera gott hús betra til framtíðar.

Ég er bjartsýnn á að þessi tími eigi alveg að duga okkur. Það getur farið eitt ár í undirbúning og síðan bara að fara á fullu í framkvæmdir. Ég minni á að það var byggt 20.000 manna hús, höll í Búdapest, sem við kepptum í núna á síðasta Evrópumóti, hún var byggð á 18 mánuðum.“

Hann gleðst yfir því að stjórnmálamenn hafi loks látið slag standa.

„Ef við stöndum saman þá tel ég að við ættum að geta þetta innan þessa tímaramma sem er gefinn upp. Ég er bara virkilega ánægður með að menn hafi loksins tekið höndum saman um að gera þetta.

Menn hafa alltaf verið að karpa um einhverja hluti sem skipta í raun og veru ekki máli til lengri tíma litið. Það að stjórnmálamenn hafi haft kjark og þor til þess að fara í þessa framkvæmd er jákvætt,“ sagði Guðmundur að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert