Frá Barcelona til Parísar

Lieke Martens í leik með hollenska landsliðinu á Laugardalsvelli í …
Lieke Martens í leik með hollenska landsliðinu á Laugardalsvelli í september á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hollenska knattspyrnukonan Lieke Martens mun ganga til liðs við stórlið París SG í Frakklandi í sumar frá Spánar- og Evrópumeisturum Barcelona.

Það er franski miðillinn Le Parisien sem greinir frá þessu en Martens, sem er 29 ára gömul, hefur leikið með Barcelona frá árinu 2017.

Hún hefur verið algjör lykilmaður í hollenska landsliðinu undanfarin ár og spilaði stórt hlutverk þegar liðið varð Evrópumeistari á EM 2017 í Hollandi.

Alls á hún að baki 133 A-landsleiki fyrir Holland þar sem hún hefur skorað 54 mörk.

mbl.is