Bikarmeistarar í Svíþjóð

Guðrún Arnardóttir og liðsfélagar hennar í Rosengård eru sænskir bikarmeistarar.
Guðrún Arnardóttir og liðsfélagar hennar í Rosengård eru sænskir bikarmeistarar. Ljósmynd/@FCRosengard

Guðrún Arnardóttir og liðsfélagar hennar í sænska knattspyrnuliðinu Rosengård eru bikarmeistarar þar í landi eftir dramatískan sigur gegn Häcken í úrslitaleik í Malmö í dag.

Leiknum lauk með 2:1-sigri Rosengård þar sem úrslitin réðust í framlengingu.

Johanna Kaneryd kom Häcken yfir strax á 8. mínútu en Bea Sprung jafnaði metin fyrir Rosengård á 62. mínútu og þannig var staðan að venjulegum leiktíma loknum.

Í framlengingunni reyndist Stefanie Sanders hetja Rosengård þegar hún skoraði sigurmark leiksins og þar við sat.

Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Rosengård en Agla María Albertsdóttir var ónotaður varamaður hjá Häcken. Diljá Ýr Zomers var ekki í leikmannahóp Häcken.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert