Okkar menn geta lært mikið af Alfreð

Alfreð Finnbogason æfir með Lyngby.
Alfreð Finnbogason æfir með Lyngby. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Freyr Alexandersson, þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Lyngby, segir að sínir menn geti lært mikið af Alfreð Finnbogasyni sem æfir með liðinu þessa vikuna.

Freyr var aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í fótbolta á sínum tíma og þeir Alfreð þekkjast því vel. Alfreð er laus undan samningi hjá Augsburg í Þýskalandi og leitar sér að nýju liði en hann hefur verið mikið orðaður við Hammarby í Svíþjóð.

„Alfreð er leikmaður með meira en 100 leiki í Búndeslígunni og við þekkjumst vel frá því ég starfaði með íslenska landsliðinu. Hann er án liðs og þarf að halda sér í formi og telur Lyngby vera félag með ágætis gæði og aðstöðu, þannig að við erum ánægð með að hafa Alfreð hérna í heimsókn," segir Freyr á heimasíðu Lyngby.

„Það hefur líka góð áhrif á aðra leikmenn okkar, sérstaklega þá ungu, að vera með leikmann í þessum gæðaflokki á æfingum. Þó Alfreð hafi verið þjakaður af meiðslum á seinni árum þá er hann svo sannarlega leikmaður úr hærri gæðaflokki með gríðarlega reynslu, sem okkar ungu menn eiga að geta lært mikið af," segir Freyr Alexandersson.

mbl.is