Fínt að mæta Englendingum því það er hægt að vinna þá

Joe Morrell togar Grzegorz Krychowiak niður í leik Wales og …
Joe Morrell togar Grzegorz Krychowiak niður í leik Wales og Póllands í gær. AFP/Geoff Caddick

Joe Morrell, miðjumaður velska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir að það muni henta liðinu vel að mæta nágrönnum sínum í Englandi í lokaleik liðanna í B-riðli HM 2022 í Katar í nóvember næstkomandi.

Wales og England eru í riðli með Íran og Bandaríkjunum og munu mæta þeim áður en þau etja kappi innbyrðis 29. nóvember næstkomandi.

Morrell, sem leikur með Portsmouth í ensku C-deildinni, segir Wales-verja hvergi bangna og hefur það eflaust sitt að segja að Englendingum hefur gengið illa í Þjóðadeild UEFA, þar sem liðið vann ekki leik í riðli sínum og féll niður í B-deild keppninnar.

„Við munum þurfa að minnsta kosti fjögur stig til að komast áfram. Að mæta Englandi síðast gæti hentað okkur ansi vel en við eigum þrjá leiki fyrir höndum og gætum þurft að standa okkur vel í þeim öllum,“ sagði hann í samtali við BBC Sport.

Á EM 2020 á síðasta ári lék Wales gegn væntanlegum Evrópumeisturum Ítalíu í lokaleik A-riðils mótsins og hafnaði í öðru sæti með fjögur stig þrátt fyrir að hafa tapað fyrir Ítölum

„Það virkaði eflaust frekar vel fyrir okkur að mæta Ítalíu í síðasta leiknum á EM. Ef það kemur til þess að við þurfum á úrslitum að halda gegn Englandi tækjum við því með bros á vör vegna þess að það er hægt að vinna þá,“ bætti Morrell við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert