Hlynur frá Bologna til Vals

Hlynur Freyr Karlsson er kominn til Vals frá Bologna.
Hlynur Freyr Karlsson er kominn til Vals frá Bologna. Ljósmynd/Valur

Knattspyrnumaðurinn Hlynur Freyr Karlsson er kominn með leikheimild hjá Val, en hann kemur til félagsins frá Bologna á Ítalíu.

Hlynur er uppalinn hjá Breiðabliki og lék sinn eina deildarleik með liðinu í úrvalsdeildinni árið 2020, þá aðeins 16 ára gamall.

Í kjölfarið var hann keyptur til Bologna á Ítalíu, þar sem hann hefur leikið með U17, U18 og U19 ára liðum ítalska félagsins.

Hlynur, sem verður 19 ára í apríl, er þriðji táningurinn sem gengur í raðir Vals á tæpri viku, en þeir Lúkas Logi Heimisson og Óliver Steinar Guðmundsson gerðu slíkt hið sama í síðustu viku. 

Þeir eiga það allir sameiginlegt að hafa farið ungir að árum til Ítalíu. Lúkas kom til Vals frá Fjölni, eftir að hafa áður verið hjá Empoli, og Óliver kemur frá Atalanta en hann er uppalinn hjá Haukum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert