Engin góðgerðastarfsemi fólgin í að velja Zlatan

Zlatan Ibrahimovic á blaðamannafundi í dag.
Zlatan Ibrahimovic á blaðamannafundi í dag. AFP/Jonathan Nackstrand

Janne Andersson, þjálfari sænska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir hinn 41 árs gamla Zlatan Ibrahimovic vera í landsliðshópnum á eigin verðleikum.

Zlatan hefur lítið leikið með Ítalíumeisturum AC Milan á yfirstandandi tímabili vegna meiðsla og missti af EM 2020, sem þrátt fyrir heitið fór fram sumarið 2021, af sömu orsökum.

Andersson sagði sóknarmanninn magnaða hins vegar fyllilega kláran í slaginn fyrir fyrstu tvo leiki Svíþjóðar í undankeppni EM 2024, gegn Belgíu og Aserbaídsjan.

„Það er ekkert að há Zlatan núna. Það er undir mér komið hve mikið ég nota hann. Hann getur spilað 80 eða 90 mínútur.

Hann er hér til þess að leggja sitt af mörkum á vellinum. Hann er ekki hér vegna einhverrar góðgerðastarfsemi. Hann vill leggja sitt af mörkum og svo þurfum við að sjá hvort hann verði í byrjunarliðinu,“ sagði landsliðsþjálfarinn í samtali við ríkissjónvarp Svía, SVT.

mbl.is