Helena hætt með landsliðið

Helena Ólafsdóttir verður ekki áfram þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu. Tveggja ára samningur hennar við Knattspyrnusamband Íslands rennur út um áramótin en á fundi sem Helena átti með formanni og framkvæmdastjóra KSÍ í gær var henni tjáð að samningurinn yrði ekki endurnýjaður.

"Ég var afar ósátt þegar mér bárust tíðindin og þetta var töluvert högg í andlitið. Ég hafði mikinn áhuga á því að halda áfram enda fannst mér ég eiga ólokið því starfi sem ég lagði af stað með. Ég óskaði eftir fundi með forráðamönnum KSÍ þar sem ég vildi fá að vita framtíð mína. Skýringarnar sem ég fékk voru þær að ég hefði ekki lengur virðingu leikmanna og árangur liðsins á heimvelli hefði ekki verið nógu góður," sagði Helena við Morgunblaðið í gær.

Helena kvaðst frekar eiga von á því að hún tæki sér frí frá þjálfun. Tvö félög leituðu til hennar í haust, KR og ÍBV, en hún neitaði báðum. KR hefur þegar ráðið Írisi Eysteinsdóttur en ÍBV hefur ekki ráðið þjálfara í stað Heimis Hallgrímssonar. Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að Eyjamenn komi til með að leita til Helenu á nýjan leik og spurð hvort hún væri tilbúin að fara til ÍBV ef til hennar yrði leitað sagði Helena: "Ég á ekki von á því eins og staðan er í dag. Ég bý í Reykjavík og líklegast er að ég taki mér bara frí frá þjálfun."

Helena tók við þjálfun landsliðsins af Jörundi Áka Sveinssyni fyrir tveimur árum. Liðið lék 14 leiki undir hennar stjórn, vann fimm, gerði eitt jafntefli en tapaði átta.