Jóhann: Fór sem betur fer í markvörðinn og inn

„Það er fínt að hafa náð sigri, tekið tvö stig og halda þannig áfram að reyna við silfrið,“ sagði Jóhann Már Leifsson sem varð hetja Íslands þegar hann skoraði tvö fyrstu landsliðsmörk sín í 3:2-sigrinum á Ástralíu í framlengdum leik í dag, í A-riðli 2. deildar HM í íshokkí.

Ísland fékk tvö mörk á sig í 2. leikhluta og var því 2:1 undir fyrir lokaþriðjunginn. Þegar allt virtist stefna í ástralskan sigur, þrátt fyrir hverja sókn Íslands á fætur annarri, dúkkaði Jóhann upp og jafnaði metin. Hann skoraði svo sigurmarkið eftir eina mínútu af framlengingunni.

„Við vorum í sókn mjög lengi en gekk ekkert sérlega vel að skora. Síðan datt pökkurinn inn í lokin. Ég reyndi „wrap around“, eins og það er kallað, og hann fór sem betur í skautann á markverðinum og inn,“ sagði Jóhann um fyrra markið sitt. Hann kvaðst ekki ætla að halda neitt sérstaklega upp á fyrstu landsliðsmörkin.

„Þetta var erfiður leikur, þeir tækluðu mikið og spiluðu líkamlega, þannig að maður er smáþreyttur í líkamanum. Það er frídagur á morgun og leikur á mánudaginn þannig að maður reynir bara að hvíla sig,“ sagði Jóhann, ánægður með stöðuna sem Ísland er í en liðið á góða möguleika á silfurverðlaunum.

„Við þurfum bara að vinna þessa tvo leiki sem við eigum eftir og þá fáum við silfrið,“ sagði Jóhann. Nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert