Sigur á Serbum í vítakeppni

Brynjar Bergmann stendur hér í ströngu í leiknum gegn Ástralíu.
Brynjar Bergmann stendur hér í ströngu í leiknum gegn Ástralíu. Ljósmynd/IIHF

Ísland vann í kvöld sigur á Serbíu í hádramatískum leik í A-riðli 2. deildar HM í íshokkí karla. Úrslitin réðust í vítakeppni eftir að staðan hafði verið jöfn að loknum venjulegum leiktíma, 3:3. Emil Alengård skoraði úr sjötta víti Íslands og Dennis Hedström varði í kjölfarið víti Serba og tryggði sigurinn.

Ísland er því áfram í 2. sæti riðilsins fyrir lokaumferðina á morgun. Sigur í venjulegum leiktíma hefði skilað liðinu þremur stigum og tryggt því silfurverðlaunin, en nú má liðið ekki tapa gegn Ísrael á morgun ætli það sér silfurverðlaunin sem yrði besti árangur Íslands frá upphafi í keppninni.

Ísland mætir Ísrael kl. 14.30 á morgun, eftir leik Eistlands og Belgíu. Ástralía og Serbía mætast svo í lokaleiknum. Staðan í riðlinum fyrir þessa leiki er svona: Eistland 12, Ísland 7, Ástralía 5, Belgía 5, Serbía 4, Ísrael 2.

Ísland komst í 2:0 í fyrsta leikhluta með mörkum Emils Alengård og Péturs Maack, og Robin Hedström jók muninn í 3:0 í 2. leikhluta. Serbar gáfust hins vegar ekki upp og jöfnuðu metin frammi fyrir gríðarlegum stuðningi hér á heimavelli, þegar enn var korter til loka venjulegs leiktíma.

Hvorugt liðið skoraði eftir það og því þurfti að framlengja. Þar sköpuðu bæði lið sér frábær færi til að tryggja sér sigurinn en án árangurs og því varð að grípa til vítakeppni. Ólafur Hrafn Björnsson og Emil Alengård skoruðu mörk Íslands gegn einu marki Serba.

Ísland hefur því unnið þrjá af fjórum leikjum sínum í mótinu og getur bætt fjórða sigrinum við í lokaumferðinni á morgun.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Viðtöl koma inn síðar í kvöld og fjallað verður um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.

Víti 6, Serbía: Jankovic reynir að jafna metin en kemur sér í þröngt færi og Dennis varði af öryggi. Ísland fagnar hádramatískum sigri!

Víti 6, Ísland: Emil Alengård skorar! Lék glæsilega á markvörðinn og skoraði.

Víti 5, Serbía: Kovacevic reynir enn en mér sýndist hann einfaldlega skjóta framhjá. Koma svo Emil!

Víti 5, Ísland: Björn Már Jakobsson reynir næstur en skotið fer í stöngina.

Víti 4, Serbía: Kovacevic reynir að skora aftur en þetta var afleit tilraun. Dennis ver.

Víti 4, Ísland: Ólafur tekur aftur víti en skýtur í þetta sinn framhjá. Serbar geta tryggt sér sigur.

Víti 3, Ísland: Jóhann Már Leifsson reynir einnig að leika á markvörðinn en skotið er varið.

Víti 3, Serbía: Nemanja Jankovic tekur vítið og reynir að leika á Dennis sem ver.

Víti 2, Ísland: Emil Alengård tekur vítið en skýtur beint í markvörð Serba. Staðan enn jöfn. Þetta er of mikið.

Víti 2, Serbía: Nemanja Vucurevic tekur vítið en Dennis ver!

Víti 1, Ísland: Ólafur Hrafn Björnsson tekur fyrsta víti Íslands og skorar ís töng og inn!!

Víti 1, Serbía: Marko Kovacevic fyrirliði tekur fyrsta vítið og skorar framhjá Dennis. 

65. Það ætlar að taka sinn tíma að hreinsa svellið. Áhorfendur eru farnir að ókyrrast.

65. Framlengingu lokið. (3:3) Við fáum vítakeppni, í fyrsta sinn í þessu móti. Fyrst verður skautaleiðin hreinsuð fyrir vítaskytturnar.

64. Mínúta eftir og 1. lína mætir inná. Robin hvílir.

64. Jóhann með gott skot af nokkuð löngu færi en varnarmaður Serba renndi sér fram fyrir markvörð sinn og varði. Pétur nærri því að ná frákastinu.

63. Aftur stórhætta, skot rétt framhjá og svo varði Dennis.

62. Serbar komast tveir gegn einum og ná hörkuskoti sem Dennis varði yfir markið.

61. Framlenging hafin og Robin nálægt því að tryggja sigurinn strax. Serbar geysast svo í sókn og fá ekki síðra færi en skotið varið.

60. Leikhluta 3 lokið. (3:3) Annan leikinn í röð fer Ísland í framlengingu. Þar með er ljóst að liðið tryggir sér ekki silfurverðlaun í kvöld en jafnframt ljóst að Ísland verður í 2. sæti fyrir lokaumferðina á morgun, þar sem liðið mætir Ísrael. Nú er bara að sjá hvort Ísland verður þá með tveggja stiga forskot á næsta lið, eða eins stigs.

59. Darraðadans við mark Íslands en strákarnir koma pekkinum í burtu. Ein og hálf mínúta eftir. Fáum við framlengingu?

58. Andri Már Mikaelsson með skot í netið utanvert og Orri brá sér svo í sóknina og átti fínt skot sem var varið.

57. Robin með hættulegt skot rétt framhjá markin og Jón Gíslason náði frákastinu en skot hans var varið. Serbar aftur með fullmannað lið.

55. Serbar missa Lukovic af velli í tvær mínútur.

55. Úlfar Jón Andrésson í góðu færi fyrir miðju marki en skaut rétt framhjá. Fín tilraun.

54. Smá-áflog eftir að einn Serbinn fór hættulega nálægt Dennis markverði. Orri mætti á vettvang og ruslaði honum í burtu.

52. Fíni sókn hjá okkar bestu línu og Robin með skot rétt framhjá markinu.

50. Jónas Breki kemur loksins inná og slæst aðeins við Serbana. Fer svo aftur af velli.

47. Markið kveikti svakalega í heimamönnum hér á áhorfendapöllunum sem láta vel í sér heyra. Þetta er erfitt núna. Svakalega erfitt.

46. MARK! (3:3) Nei, nei, nei! Serbar jafna metin með þrumuskoti frá Nemanja Jankovic. Serbarnir eru miklu ákveðnari.

43. Serbarnir grimmir og Dimitrije Filipovic nær hættulegu skoti sem Dennis varði. Þeir pressa áfram.

41. MARK! (3:2) Úff. Martraðarbyrjun á lokaþriðjungnum. Serbar geysast strax í sókn, með áhorfendur alla standandi og öskrandi, og ná að minnka muninn í eitt mark, 3:2. Vucurevic átti skot sem Dennis varði til hliðar og þar var Marko Kovacevic mættur til að skora auðveldlega.

40. Leikhluta 2 lokið. Ísland er tveimur mörkum yfir fyrir lokaþriðjunginn og komið ótrúlega nálægt því að ná í silfurverðlaun. Þau eru hins vegar fjarri því að vera komin í hús. Einhverjir telja það sjálfsagt boða ógæfu en þess má geta að Íslendingum hefur gengið best í 3. leikhluta í mótinu til þessa, fengið á sig eitt mark gegn Eistlandi en skorað fimm í leikjunum þremur.

40. Mikill klaufaskapur í íslenska liðinu og Serbar fengu dauðafæri í þann mund sem leikhlutinn var að klárast en skotið fór sem betur fer í Dennis.

38. Serbar missa mann af velli og strákarnir eru nærri því að nýta það. Pétur fékk pökkinn frá Emil og átti skot af stuttu færi sem markvörðurinn varði með naumindum.

36. Fín sókn hjá Íslandi. Jóhann með sendingu á Brynjar sem lét vaða en markvörður Serba varði.

34. Afar löng sóknarlota hjá Íslandi sem endaði með hörkuskoti frá Jóni Gíslasyni. Markvörður Serba fékk pökkinn einhvern veginn í sig, þaðan skoppaði hann upp í loftið og Serbar höfðu heppina með sér þegar þeir náðu frákastinu og bægðu hættunni frá.

30. Pétur Maack renndi sér aftur fyrir markið og átti skot sem markvörðurinn náði að loka fyrir.

29. Boris Gabric sækir einn gegn Ingvari og það fer mikill kliður um áhorfendur en fast skotið fór sem betur fer rétt framhjá.

28. Ingvar nálægt því að skora þegar hann kastaði sér fram eftir skot Robins sem var varið, en pökkurinn fór rétt framhjá markinu.

27. MARK! (3:1) Serbar minnka muninn. Vucurevic sneri sér og átti frábæra sendingu frá vinstri þvert fyrir markið þar sem Marko Kovacevic stakk sér fram og skoraði í annarri tilraun.

26. Úff. Hætta á ferð. Ingvar missti pökkinn og Nemanja Vucurevic komst einn gegn Dennis sem varði og hélt pekkinum.

24. MARK! (3:0) Robin Hedström bætir við sínu fimmta marki á mótinu og staðan er orðin mjög vænleg, 3:0. Emil sendi pökkinn á hann og Robin lyfti snyrtilega yfir markvörðinn af stuttu færi.

23. Jóhann vann pökkinn og kom honum á Pétur sem átti fínt skot en markvörður Serba varði naumlega, og missti reyndar hjálminn í leiðinni.

21. Annar leikhluti hafinn. Serbar manni færri í 23 sekúndur til viðbótar, alla vega ef Ísland skorar ekki bara.

20. Leikhluta 1 lokið. Strákarnir fara með góða stöðu, 2:0 forskot, inn í búningsklefa. Emil Alengård gaf Íslandi draumabyrjun með marki strax á 4. mínútu. Serbar sóttu um tíma stíft og voru nærri því að jafna metin áður en Pétur Maack, nýkominn úr sinni annarri kælingu í refsiboxinu, bætti við öðru marki eftir sendingu Brynjars Bergmann. Það er silfur í boði og strákarnir vilja tryggja sér það í kvöld.

20. Pökkurinn small í hringnum og kom út til Robins Hedström sem átti skot af frekar stuttu færi en það var varið.

19. Serbar missa mann af velli í tvær mínútur. Það skemmir ekkert fyrir!

18. MARK! (2:0) JÁÁÁÁ! Strákarnir tvöfalda forskotið úr skyndisókn. Pétur Maack kom inn úr refsiboxinu og það var greinilegur hiti í honum. Hann geystist um svellið til að vinna pökkinn, Brynjar Bergmann fékk hann svo og gaf þvert fyrir markið frá vinstri á Pétur sem skoraði af stuttu færi.

17. Serbar með hættulegt skot hægra megin sem fór í netið utanvert. Strákarnir þurfa að halda þetta út hérna í 1. leikhluta.

16. Pétur og starfsmaðurinn í refsiboxinu fá að kynnast aðeins betur. Hann er aftur rekinn af velli.

15. Emil fór með pökkinn einn gegn tveimur varnarmönnum og lék skemmtilega á þá áður en hann kom skoti á markið sem markvörður Serba varði naumlega. Pétur kemur aftur inná.

14. Aftur stórhætta á ferð. Marko Kovacevic fyrirliði Serba var með pökkinn á bakvið íslenska markið, tók gabbhreyfingu og stakk kylfunni svo fram fyrir hægri stöngina en á síðustu stundu komst Björn Már Jakobsson fyrir skotið.

13. Pétur Maack fær fyrstu brottvísun Íslands fyrir að krækja í andstæðing.

11. Stór, stór, stórhætta við mark Íslands. Serbarnir komust þrír gegn einum eftir að Orra mistókst að taka við pekkinum á miðsvæðinu. Dennis varði vel í tvígang og kom í veg fyrir að Serbar jöfnuðu metin. Serbar áttu svo hörkuskot af lengra færi í kjölfarið sem fór rétt framhjá. Þeirra bestu sóknartilburðir til þessa.

9. Serbar aftur með fullskipað lið.

8. Góð sókn hjá Íslandi sem endaði með sendingu Andra Más Helgasonar á Jón Gíslason sem var einn en skot hans úr frekar þröngu færi hægra megin var varið.

7. Serbar fá fyrstu brottvísunina.

6. Dennis fór af velli og Ísland prófaði að spila eina sókn með aukamann. Það bar ekki árangur en skapaði heldur enga hættu.

4. MARK! (1:0) Serbar misstu pökkinn á stórhættulegum stað á miðjunni, og hann barst til Emils Alengård. Varnarmaður Serba gerði þau miklu mistök að opna skotleiðina fyrir Emil, og reyna frekar að loka fyrir sendingu, og Emil skoraði af öryggi. Glæsilega afgreitt.

2. Milos Babic keyrir einn gegn Andra Má Helgasyni, dyggilega hvattur áfram, en Andri gerir skotvinkilinn erfiðan og Dennis varði af öryggi.

1. Leikur hafinn!Hverjir erum við?! ÍSLAND!!“ Björn fær menn til að öskra sig í gang og þá má þetta byrja. Endurtek að með sigri myndi Ísland tryggja sér silfurverðlaun í fyrsta sinn í sögunni.

0. Dómararnir komnir út á svellið og fjörið fer að hefjast. Serbar láta vel í sér heyra á pöllunum.

0. Tim þjálfari er aðeins búinn að breyta til í línunum fjórum fyrir leikinn. Fyrsta lína er reyndar óbreytt enda virkað vel, með Andra Má Helgason og Ingvar Þór Jónsson í vörninni en Robin Hedström, Emil Alengård og Jón Gíslason frammi. Hins vegar koma þrír nýir inn í 2. línu, þeir Orri Blöndal, Björn Már Jakobsson og Brynjar Bergmann. Birkir, Ingþór og Jónas Breki færast í 4. línu með Andra Frey og Sigurði.

0. Það verður smábið á að leikurinn hefjist vegna tafa í fyrri leikjum. Leikmenn voru að koma út á svellið til upphitunar og leikurinn ætti að hefjast kl. 18.20 að íslenskum tíma.

0. Ísland og Serbía hafa mæst fjórum sinnum. Serbar unnu fyrstu tvo leikina, 11:2 og 6:1, þann fyrsta reyndar sem Serbía og Svartfjallaland. Ísland vann 5:3-sigur í Reykjavík 2012 og svo 5:1-sigur í lokaumferðinni í Króatíu í fyrra.

0. Vinni Serbar í kvöld er baráttan um silfrið komin í rembihnút. Serbar væru þá með 6 stig í 2. sæti, stigi ofar en Ísland, Ástralía og Belgía. Íslendingar þyrftu þá að treysta á að Ástralir vinni Serba í lokaumferðinni, og vinna sjálfir Ísrael.

0. Þá er leik Eistlands og Ísraels lokið, með 16:3-sigri Ísraels, og endanlega ljóst að Íslandi dugar sigur gegn Serbum í kvöld til að taka silfrið. Eistar tryggðu sér gullið og leika í 1. deild að ári. Nánar um málið HÉR.

0. Eins og Dennis Hedström markvörður benti á í viðtali við mbl.is eru Serbarnir með hættulega sóknarmenn en markverðir þeirra hafa hins vegar átt erfitt uppdráttar í mótinu. Liðið hefur fengið á sig 19 mörk í 3 leikjum en eini sigur liðsins var gegn Ísrael, 10:6.

0. Serbum hefur vaxið ásmegin í mótinu og þeir gáfu Eistlandi hörkuleik á laugardaginn frammi fyrir stappfullri höll. Það var auðséð hve góð áhrif stuðningurinn hafði á þá og ekki er búist við síðri stemningu í kvöld.

0. Tíu dagar eru síðan hópurinn hélt til Svíþjóðar og spilaði tvo erfiða æfingaleiki fyrir mótið. Þetta er fjórði leikurinn í mótinu og álagið er aðeins farið að segja til sín, að sögn Tims Brithén þjálfara. Nokkrir leikmenn finna fyrir flensu og ykkar einlægur heftur oft átt betri daga. En það verður ekkert gefið eftir á svellinu!

0. Góða kvöldið kæru lesendur mbl.is! Það er farið að síga á seinni hlutann hér í Belgrad og línur heldur betur farnar að skýrast í riðlinum. Eistlendingar eru að tryggja sér efsta sætið með sigri á Ísrael en þeim leik er þó ekki lokið. Það þýðir að silfursætið er Íslands með sigri á Serbíu, sama hvernig fer gegn Ísrael á morgun!

Íslenski hópurinn:
Andri Freyr Sverrisson, Andri Már Helgason, Andri Már Mikaelsson, Birkir Árnason, Björn Már Jakobsson, Brynjar Bergmann, Dennis Hedström (M), Emil Alengard, Ingólfur Tryggvi Elíasson, Ingvar Þór Jónsson, Ingþór Árnason, Jóhann Már Leifsson, Jón Benedikt Gíslason, Jónas Breki Magnússon, Orri Blöndal, Ólafur Hrafn Björnsson, Pétur Maack, Robin Hedström, Róbert Freyr Pálsson, Sigurður Reynisson, Snorri Sigurbergsson, Úlfar Jón Andrésson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert