Dómari lést í kúluvarpskeppni

Kúla sem keppt er með í kúluvarpi.
Kúla sem keppt er með í kúluvarpi.

Sá voveiflegi atburður átti sér stað um síðastliðna helgi að dómari á frjálsíþróttamóti innanhúss í Prag, höfuðborg Tékklands, lést af slysförum.

Keppni í kúluvarpi var í fullum gangi og mun dómarinn hafa fengið kúluna í sig. Hún hæfði hann í bringuna, en ekki er vitað hvort hann hafi látist samstundis. Keppni á mótinu var í það minnsta aflýst í kjölfar atviksins og hefur tékkneska frjálsíþróttasambandið staðfest fregnirnar.

Kúla sem keppt er með í fullorðinsflokki er rúmlega 7 kíló að þyngd. Þess má geta að Íslandsmetið í greininni er yfir 20 metrar og því getur verið um töluverðan kraft að ræða.

Dómarinn hét Pavel Zeman og var sagður þrautreyndur dómari í frjálsum íþróttum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert