„Fór eins og ég bjóst við“

Gunnar Nelson fagnar sigrinum í nótt.
Gunnar Nelson fagnar sigrinum í nótt. Ljósmynd/UFC

Þetta fór eins og ég bjóst við,“ sagði sigurreifur Gunnar Nelson sem sneri aftur í búrið eftir langa fjarveru og sigraði Brasilíumanninn Alex Oliviera á UFC 231-bardagakvöldinu í Toronto, Kanada, í nótt.

Gunnar barðist síðast í júlí á síðasta ári og var þá rotaður af Santiago Ponzinibbio og var þetta því kærkomin endurkoma en Gunnar var ekki sérstaklega ánægður með dómara kvöldsins er hann ræddi við Joe Rogan, þul UFC, inni í búrinu strax eftir bardagann.

„Hann sló mig aftan á hnakkann og það sló mig aðeins út af laginu. Ég lifði það af og kláraði svo verkið,“ sagði hann en slík högg eru ekki leyfð. Dómarinn greip þó ekki inn í og ekki heldur þegar Oliviera hélt í rimla búrsins og kom í veg fyrir að Gunnari tækist að fella hann.

„Hann var illviðráðanlegur, mannhelvítið,“ bætti Gunnar við en Brasilíumaðurinn var þó ekki illviðráðanlegri en það að Gunnar hefur nú unnið átta bardaga í UFC og 17 alls. Þá hefur hann aldrei tapað tveimur í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert