Valgarð á varamannalista (myndskeið)

Valgarð Reinhardsson keppti á þremur áhöldum í dag á heimsbikarmóti í áhaldafimleikum sem fram fer í Melbourne í Ástralíu.

Í dag líkt og í gær var keppt í undankeppni en úrslit fara fram næstu daga. Valgarð keppti meðal annars á sínu sterkasta áhaldi í dag, stökki, og fékk þar 13,541 í einkunn en endaði í 14. sæti. Igor Radivilov frá Úkraínu varð efstur með 14,766 í einkunn en áttundi og síðasti maður inn í úrslit var með 14,216 í einkunn.

Valgarð varð hins vegar í 11. sæti og er þar með þriðji varamaður inn í úrslit bæði á tvíslá og svifrá. Hann fékk 13,100 í einkunn á tvíslá en áttundi maður inn í úrslit var með 13,566 í einkunn. Valgarð fékk svo 12,966 í einkunn á svifrá en áttundi maður þar inn í úrslit var með 13,466.

Á myndskeiðinu sem fylgir þessari frétt má sjá allar æfingar Valgarðs í dag. Hann keppti einnig í gær en þá á einu áhaldi, gólfi, og endaði í 20. sæti.

Valgarð Reinhardsson keppti í Ástralíu í dag og í gær.
Valgarð Reinhardsson keppti í Ástralíu í dag og í gær. Ljósmynd/FSÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert