Fyrsti í sögunni undir 57 sekúndur

Adam Peaty er með mikla yfirburði í 100 metra bringusundi.
Adam Peaty er með mikla yfirburði í 100 metra bringusundi. AFP

Bretinn Adam Peaty varð í dag fyrsti maður sögunnar til að synda 100 metra bringusund á undir 57 sekúndum. Hann kom þá fyrstur í mark í úrslitasundinu á heims­meist­ara­mót­inu í 50 m laug í Gwangju í Suður-Kór­eu á 56,88 sekúndum. 

Hann bætti í leiðinni eigið heimsmet frá því á EM í fyrra sem var 57,10 sekúndur. Peaty kom í mark tæpum tveimur sekúndum á undan Yan Zibei frá Kína sem varð annar. James Wilby frá Bretlandi varð þriðji. 

„Þetta er ótrúlegt. Ég er búinn að eltast við þetta í þrjú ár, eða síðan á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016," sagði Peaty eftir sundið. Óhætt er að segja að Peaty sé með fáheyrða yfirburði í greininni. Hann á 16 bestu tíma sögunnar og hefur synt 1,4 sekúndum hraðar en nokkur maður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert