„Algjör hörmung og katastrófa“

Shelly-Ann Fraser-Pryce kemur fyrst í mark í 100 metra hlaupinu …
Shelly-Ann Fraser-Pryce kemur fyrst í mark í 100 metra hlaupinu en aðeins tvö þúsund áhorfendur voru á leikvanginum þegar úrslitahlaupið fór fram. AFP

Lítill áhugi er hjá heimamönnum í Katar fyrir heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem fram fer í Doha í Katar og hafa margir gagnrýnt Alþjóðafrjálsíþróttasambandið fyrir að halda mótið í Katar.

Fáir áhorfendur hafa verið á heimsmeistaramótinu og hafa aðeins 50 þúsund miðar verið seldir á allt mótið en það er sami fjöldi og mætti á hvern dag þegar keppt var til úrslita á heimsmeistaramótinu í London fyrir tveimur árum.

Þegar keppt var til úrslita í 100 metra hlaupi kvenna á sunnudagskvöldið voru aðeins um 2.000 manns á áhorfendapöllunum.

Fyrir utan Khalifa Stadium hefur verið svo mikill raki og sláandi hiti að margir íþróttamenn hafa hætt við keppni og til að mynda gáfust 28 af 68 keppendum í maraþonhlaupi kvenna upp en 70% raki var þegar hlaupið fór fram. Inni á leikvanginum sjálfum er loftkæling og þar er hitinn um 23 gráður

Þegar Norðmaðurinn Karsten Warholm var spurður að því á fréttamannafundi eftir að hafa tryggt sér heimsmeistaratitilinn í 400 metra grindahlaupi á mánudagskvöldið hvernig það hafi verið að hlaupa sigurhringinn fyrir framan tómar áhorfendastúkur sagði hann:

„Ég er vanur því að tala við sjálfan mig.“

Franski tugþrautarkappinn Kevin Mayer sem á titil að verja sparar ekki stóru orðin.

„Við sjáum öll að þetta er algjör hörmung og katastrófa. Það er enginn í stúkunni,“ sagði Mayer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert