Fer fram þrátt fyrir faraldurinn

Nýliðavalið 2018 fór fram á AT&T leikvanginum í Arlington, Texas, …
Nýliðavalið 2018 fór fram á AT&T leikvanginum í Arlington, Texas, með mikilli viðhöfn. Í ár verður athöfnin allt öðruvísi. AFP

Þrátt fyrir þær miklu takmarkanir sem settar hafa verið á mannamót og íþróttaviðburði í heiminum öllum mun nýliðaval NFL-deildarinnar fara fram á settum tíma, dagana 23.-25. apríl næstkomandi. Halda átti valið í Las Vegas og átti það að vera einskonar innflutningspartí fyrir borgina en lið Oakland Raiders færði sig til þangað eftir að síðasta keppnistímabili deildarinnar lauk.

Við tilefnið átti að slá til heljarinnar veislu en nokkur hundruð þúsund aðdáendur liða deildarinnar mæta ár hvert á nýliðavalið til að taka þátt í stemningunni og sjá hvaða háskólaleikmenn landsins munu bætast við leikmannahóp liðs þeirra. Um 600.000 manns tóku þátt í hátíðarhöldunum þegar valið fór fram í Nashville, Tennessee í fyrra. Nú verða aðdáendur hins vegar að fylgjast með heiman frá sér þar sem valið fer fram í sjónvarpsmyndveri. Þá mætir enginn nýliði á svæðið eins og venja hefur orðið.

Stjórnendur liða deildarinnar – þeir sem velja í nýliðavalinu – þurfa að gera það án þess að hitta leikmennina. Þeir geta því ekki lagt mat á persónueinkenni eins og viljastyrk, vinnusemi, fórnfýsi, gáfur, lærdómsfýsi og fleira sem þeir telja að hafi áhrif á framvindu ferils nýliðanna í deildinni. Þá hefur allri æfingaaðstöðu liðanna verið lokað, háskólarnir geta ekki haldið svokallaðan atvinnumannadag(e. pro day) og læknar liðanna neita að framkvæma læknisskoðun á leikmönnum. Þetta gerir það að verkum að liðin geta ekki séð leikmennina í návígi né fengið staðfest að leikmaður sem átt hefur við meiðsli að stríða sé heill heilsu.

Margir vilja meina að þetta muni valda því að ekki sé hægt leggja nógu gott mat á það hvaða leikmenn eigi að velja snemma, seint eða hreinlega ekki í nýliðavalinu. Mun árangur leikmanna í deildinni því vera í meira ósamræmi en síðustu ár við það hvenær þeir eru valdir í nýliðavalinu. Hafa einhverjir innan NFL-liðanna gengið svo langt að krefjast þess að valinu verði frestað því liðin fari á mis við mikilvægar upplýsingar sem fengjust úr viðtölum, æfingum og læknisskoðunum. Milljónir dollara séu í húfi.

En er þetta rétt? Hafa stjórnendur jafn mikila hæfileika og þeir halda við að meta leikmenn og nýtast þeir mun betur hitti þeir leikmennina?

Hver valréttur skiptir máli 

Í nýliðavali NFL-deildarinnar fá liðin 32 að velja þá leikmenn úr háskólaruðningnum sem þau vilja semja við. Það tekur þrjá daga að klára þær sjö umferðið sem fram fara og hefur hvert lið einn valrétt í hverri umferð. Röðin er ákvörðuð af árangri liðanna á síðasta tímabili en ekkert happdrætti fer fram um fyrstu valréttina líkt og í NBA-deildinni; slakasta liðið fær einfaldlega fyrsta valrétt og svo koll af kolli.

Nýliðavalið skiptir liðin miklu máli. Leikmönnum er oft skipt á milli liða fyrir valrétti í valinu og þá eru valréttir í fyrstu umferð aðeins falir fyrir bestu leikmenn hinna liðanna eða fjölda valrétti seinni umferðum. Í NFL-deildinni eru nýliðar sem valdir eru í fyrstu eða annarri umferð, að leikstjórnendum undaskildum, oft með bestu leikmönnum sinna liða strax á fyrsta tímabili. Þá er leikmannavelta mikil innan deildarinnar – meðalferillinn er 3,3 ár – og leikmannahópar stórir – 53 menn skipa hvern leikmannahóp yfir tímabilið og eru meiddir menn þá ekki meðtaldir.

Því er ekki nóg að einbeita sér aðeins að bestu leikmönnum hvers nýliðavals heldur skiptir einnig máli að velja rétt í seinni umferðum valsins. Í því skyni getur reynst liðum erfitt að sjá leikmenn ekki æfa, ræða við þá tímum saman í eigin persónu og fá lækna sína til að líta á þá þar sem ekki eins góðar upplýsingar er að fá um þessa minni spámenn.

Joe Burrow, til hægri, verður líklega valinn fyrstur og hér …
Joe Burrow, til hægri, verður líklega valinn fyrstur og hér ræðir hann við fyrrverandi leikstjórnandann Chad Pennington. AFP


Átti besta tímabil í sögu háskólaboltans

Vendum nú kvæði okkar í kross og lítum á bestu leikmenn nýliðavalsins í ár. Joe Burrow, leikstjórnandi LSU háskólans, er óumdeilanlega líklegastur til að verða valinn fyrstur í nýliðavalinu og fara til Cincinnati Bengals. Hann átti ótrúlegt tímabil með LSU í fyrra þar sem hann kastaði fyrir flestum sertimörkum í sögu háskólaboltans og leiddi liðið ósigrað til landsmeistaratitils. Burrow er sagður hafa einkar mikinn leikskilning og verið líkt við hinn goðsagnakennda Peyton Manning.

Hann hefur þó ekki mikla líkamlega eiginleika samanborið við aðra leikstjórnendur og síðasta tímabil var hans langbesta sem fær eflaust einhverja til að hræðast að hann dali þegar komið er í NFL-deildina. Þá hefur komið í ljós að hendur hans eru heldur litlar fyrir leikstjórnanda og gerði Burrow grín af því á twitter þegar hendur hans höfðu verið mældar af deildinni. „Íhuga að leggja skóna á hilluna efir að mér var tilkynnt að boltinn muni renna úr höndunum á mér. Geriði það, hugsið fallega til mín,“ tístaði hann öðrum tísturum til mikillar ánægju.

Tua Tagovailoa er frá Havaí en heilsa hans er stórt …
Tua Tagovailoa er frá Havaí en heilsa hans er stórt spurningamerki núna. AFP

Annar leikstjórnandi, Tua Tagovailoa, var þar til í haust talinn vera öruggur með að vera valinn fyrstur. Þá meiddist hann hins vegar illa á mjöðm og hræðir það lið frá. Hann á þó að vera orðinn heill heilsu en við núverandi aðstæður gæti honum reynst erfitt að færa sönnur á það. Tagovailoa, sem kemur frá Havaí, kom inn á í hálfleik í úrslitaleik háskólaboltans árið 2018, þá nýliði, og tryggði liði sínu, Alabama, sigur. Síðan þá hefur hann heillað áhorfendur upp úr skónum og því áhugavert að fylgjast með hvert hann fer í valinu en líklegt er að hann verði valinn með valrétt á bilinu tvö til sex.

Leikstjórnandinn Justin Herbert frá Oregon verður væntanlega valinn snemma.
Leikstjórnandinn Justin Herbert frá Oregon verður væntanlega valinn snemma. AFP

Svo gæti farið að þrír leikstjórnendur verði valdir af fyrstu fjórum liðunum sem velja í fyrstu umferðinni. Er leikstjórnandi Oregon, Justin Herbert, líklegur til að vera valinn snemma ef allt fer eins og á horfir. Myndi það teljast til tíðinda en árið 2018 fóru fjórir leikstjórnendur til fyrstu 10 liðanna en aðeins tveir til fyrstu fjögurra. Það var mikið gróskuár fyrir leikstjórnendur en þá var Lamar Jackson valinn síðastur í fyrstu umferðinni, fimmti leikstjórnenda. Hann var svo valinn mikilvægasti leikmaður NFL-deildarinnar á síðasta tímabili. Að vera valinn seint er því ekki ávísun á slakan feril – Tom Brady var til að mynda valinn í sjöttu umferð árið 2000.

Þá er þessi árgangur nýliða ekki á flæðiskeri staddur er varðar útherja og gæti svo farið að sex þeirra verði valdir í fyrstu umferðinni sem er heldur óvanalegt. Þekktastur þeirra er líklega Henry Ruggs sem getur hlaupið 40 jarda á 4,27 sekúndum sem er með því fljótasta sem menn hafa séð síðan deildin hóf að mæla hraða tilvonandi nýliða.

Chase Young er einn af þeim líklegu.
Chase Young er einn af þeim líklegu. AFP

Auk þessara leikmanna má nefna varnarmanninn Chase Young sem spilar á varnarlínunni og hefur það að atvinnu að hlaupa að leikstjórnendum og rífa þá niður. Hann gæti verið valinn snemma í valinu og mun líklega setja mark sitt á deildina strax í haust eins og menn í hans stöðu eru vanir.

Þá tryggði útsparkarinn(e. punter) Michael Turk sér óvenjumiklar vinsældir meðal leikmanna og stuðningsmanna þess liðs sem velur hann í valinu þegar hann lyfti 100 kílóum 25 sinnum í bekkpressu í mælingum NFL-deildarinnar. Eru það fleiri endurtekningar en margir af sterkustu leikmönnum deildarinnar geta státað sig af. Það má þó spyrja sig hvort slíkur efri hluta styrkur sé mikilvægur fyrir útsparkara. Líklega ekki.

Breyttir tímar kalla á breyttar aðferðir

Menn sem gegna mikilvægum stöðum og fá greitt fyrir það mikið af peningum vilja oft meina að fáir geti gert það sem þeir gera. Ef ekki væri erfitt fyrir þá að réttlæta launaseðilinn og völdin sem með stöðunni koma. Stjórnendur innan NFL-liðanna eru engin undantekning þar á. Þeir þurfa að taka ákvarðanir um hvaða leikmenn eigi að velja í nýliðavalinu og telja að með þeim aðferðum sem þeir nota – viðtölum, æfingum, o.s.frv. – komist þeir að mikilvægum upplýsingum um þá leikmenn þeir hyggjast velja sem ekki sé hægt að öðlast með öðrum hætti.

En er ekki möguleiki að þessir stjórnendur ofmeti hæfni sína? Rannsóknir hafa sýnt að fólk á mjög erfitt með að spá fyrir um viðbrögð einstaklinga við ákveðnum aðstæðum út frá viðbrögðum þeirra við aðrar. Ætti þá ekki að vera nóg að skoða gamla leiki með leikmönnum, treysta á myndbandsviðtöl og nýta upplýsingar úr mælingum NFL-deildarinnar þar sem leikmenn æfðu fyrir framan fjölda þjálfara og allt var tekið upp? Er ekki hægt að treysta öðrum læknum en sínum eigin sem framkvæmt hafa læknisskoðun á leikmönnum? Ég veit það hreinlega ekki en ef nýliðavalið fer fram í þessari mynd mun einungis tíminn leiða í ljós hvort fleiri leikmenn en vanalega spili betur eða verr en búist var við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert