HK og Hamar í sérflokki

HK-ingarnir Hristiyan Dimitrov, Valens Torfi Ingimundarson og Kristófer Björn Ólason …
HK-ingarnir Hristiyan Dimitrov, Valens Torfi Ingimundarson og Kristófer Björn Ólason Proppé. Ljósmynd/Þorsteinn Gunnar Guðnason

HK lagði Fylki að velli, 3:0, þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla í blaki í Digranesi í gærkvöld.

HK-ingar byrjuðu vel og unnu tvær fyrstu hrinurnar 25:18 og 25:19. Í þriðju hrinu byrjuðu Fylkismenn mjög vel og komust í 8:3. HK sneri því við og komst yfir 12:9 en hrinan var hnífjöfn þar til HK gerði út um hana, vann 25:20 og leikinn þar með 3:0.

Stigahæstur í liði HK var Hristiyan Dimitrov með 14 stig og eftir honum var Valens Torfi Ingimundarson með 12 stig. Í liði Fylkis var Atli Fannar Pétursson stigahæstur með 7 stig og eftir honum voru þeir Mateusz Blic og Sergej Diatlovic með 6 stig hvor.

Hamar vann Þrótt úr Vogum, 3:0, í Hveragerði, 25:9, 25:11 og 25:17. 

Hamar er því með 33 stig á toppnum en HK er með 30 stig og þessi tvö lið eru í nokkrum sérflokki. Afturelding er með 18 stig, KA 16, Þróttur Fjarðabyggð 13, Vestri 12, Fylkir 4 og Þróttur Vogum er án stiga.

mbl.is