Grautfúlir núna en höfum trú

Eiður Aron Sigurbjörnsson hefur enn trú.
Eiður Aron Sigurbjörnsson hefur enn trú. Kristinn Magnússon

Eiður Aron Sigurbjörnsson, fyrirliði ÍBV, var svekktur þegar blaðamaður mbl.is talaði við hann eftir 0:2 tap gegn FH í Bestu deild karla í knattspyrnu í Hafnarfirði fyrr í dag. 

„Markið fór illa með okkur, þeir eru með gott lið og voru búnir að fá nokkur tækifæri en mér fannst við standa varnarleikinn ágætlega af okkur en þetta var erfitt í dag.“

ÍBV hefur ekki enn unnið leik í Bestu deild karla og er með tvö stig eftir sex leiki. Aðspurður út í það hvort Eiði þætti liðið hafa haft heppnina á móti sér hingað til hafði hann þetta að segja:

„Mér fannst við spila vel á köflum og höfum gert það í flestum leikjunum. Mér er svosem sama um það hvernig við spilum, við erum ekki að fá þessi stig sem við viljum. Við þurfum bara að halda áfram og reyna að ná fyrsta sigrinum, þá fer þetta vonandi eitthvað að smella hjá okkur. Við erum grautfúlir núna en höfum en bullandi trú.“

„ÍA er næsti leikur okkar á Hásteinsvelli og ég reikna bara með alvöru látum þar, það er búið að tala mikið um stuðningsmenn þeirra og ég geri ráð fyrir að þeir mæti til Eyja. Við fáum okkar fólk til að mæta líka þannig þetta verður alvöru barátta og alvöru skemmtun,“ sagði Eiður að lokum.

mbl.is