Djokovic sneri blaðinu við

Novak Djokovic fagnar á óvenjulegan hátt eftir sigurinn í dag.
Novak Djokovic fagnar á óvenjulegan hátt eftir sigurinn í dag. AFP/Sebastien Bozon

Serbinn Novak Djokovic þurfti að vinna rækilega fyrir því að komast í undanúrslitin í einliðaleik karla á Wimbledon-mótinu í tennis en hann náði að sigra Ítalann Jannik Sinner í átta manna úrslitunum í dag.

Sinner freistaði þess að komast í fyrsta sinn í undanúrslit á stórmóti og var ekki langt frá því. Sinner vann tvö fyrstu settin og allt stefndi í óvænt úrslit.

Djokovic, sem er ríkjandi Wimbledon-meistari, náði að snúa blaðinu við í þriðja setti og eftir það var það reynslan sem skildi á milli. Serbinn vann síðasta  settið 6:2 og þar með leikinn 3:2.

mbl.is