SA vann SR í bráðfjörugum leik

Jóhann Már Leifsson skoraði tvö mörk fyrir Akureyringa í dag.
Jóhann Már Leifsson skoraði tvö mörk fyrir Akureyringa í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Skautafélag Akureyrar vann 6:3-útisigur á Skautafélagi Reykjavíkur í Skautahöllinni í Laugardal í Hertz-deild karla í íshokkí í dag.

Jonathan Outma kom SR yfir á 12. mínútu áður en Róbert Hafberg jafnaði metin á þeirri 17. Heiðar Kristveigarson, sem var að spila gegn uppeldisfélagi sínu, kom SR svo aftur yfir þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta.

Það voru svo ekki nema 50 sekúndur liðnar af öðrum leikhluta þegar Hafþór Andri Sigrúnarson jafnaði metin fyrir SA. Á 28. mínútu komst SA svo yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar Jóhann Már Leifsson skoraði en Unnar Rúnarsson bætti við fjórða marki SA átta mínútum síðar. Heiðar Kristveigarson minnkaði muninn í 4:3 þegar skammt var eftir af öðrum leikhluta með öðru marki sínu.

Jóhann Már bætti við sínu öðru marki og fimmta marki SA á 50. mínútu en það var svo Unnar Rúnarsson sem skoraði sitt annað mark og sjötta mark Akureyringa þegar 17 sekúndur voru til leiksloka.

SA er á toppi deildarinnar með 24 stig en liðið hefur nánast einokað Íslandsmeistaratitilinn frá árinu 2007. SR er í öðru sæti með 14 stig og Fjölnir rekur lestina með 4.

mbl.is