Ísland á topp tíu yfir Evrópuþjóðir í fyrsta sinn

Freyja Dís Benediktsdóttir, Anna María Alfreðsdóttir og Eowyn Marie Mamalias …
Freyja Dís Benediktsdóttir, Anna María Alfreðsdóttir og Eowyn Marie Mamalias skipa íslenska kvennalandsliðið í trissuboga. Ljósmynd/Archery.is

Íslenska kvennalandsliðið í trissuboga er nú á meðal tíu efstu Evrópuþjóða á svokölluðum Evrópulista, sem Alþjóðabogfimisambandið World Archery heldur úti.

Er það í fyrsta sinn sem íslenskt bogfimilandslið kemst í eitt af tíu efstu sætunum á Evrópulistanum, heimsálfulista World Archery, en uppfærðir heimsálfulistar sambandsins voru kynntir í dag.

Stig á heims- og Evrópulista gilda aðeins í tvö ár og aðeins fást stig fyrir að komast í 16-liða úrslit alþjóðlegra stórmóta.

Meirihluti stiga íslenska kvennaliðsins í trissuboga fengust fyrir að hafa komist í 16-liða úrslit á EM utandyra og hafna þar í níunda sæti auk Veronica’s Cup, þar sem Ísland vann gullið.

mbl.is