Gamla ljósmyndin: Afreksmaður í ólíkum greinum

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Íþróttasagan á Íslandi geymir ýmis dæmi um fólk sem náð hefur árangri í tveimur íþróttagreinum og jafnvel fleirum. Stundum eru dæmi um að fólk hafi þá náð árangri í tveimur boltagreinum sem dæmi. 

Hafsteinn Ægir Geirsson hefur skarað fram úr í tveimur íþróttagreinum hérlendis en ekki verður annað sagt en að þar sé um ólíkar greinar að ræða. 

Hafsteinn er ólympíufari og keppti fyrir Íslands hönd í siglingum bæði á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000 og aftur í Aþenu árið 2004. Hafsteinn var einungis tvítugur þegar hann keppti í Sydney. Þar var hann í 42. sæti þegar hann þurfti að hætta keppni vegna bilunar. Hafseinn keppti á Laser kænu og hafnaði í 40. sæti í Aþenu. 

Á meðfylgjandi mynd er Hafsteinn Ægir í keppninni á leikunum í Aþenu en myndina tók Kjartan Þorbjörnsson eða Golli sem myndaði leikana fyrir Morgunblaðið og mbl.is. 

Eftir að hafa keppt á tvennum Ólympíuleikum snéri Hafsteinn sér meira að hjólreiðum og þar lét árangurinn ekki á sér standa. Hafsteinn hefur sjö sinnum orðið Íslandsmeistari í götuhjólreiðum, fyrst árið 2005 og síðast árið 2020.

Auk þess hefur hann einu sinni orðið Íslandsmeistari í tímatöku sem og í ólympískum fjallahjólreiðum. Við þetta má bæta að hann hefur margoft sigrað í Bláa Lóns þrautinni í fjallahjólreiðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert