Íhuga að kæra niðurfellingu til ríkissaksóknara

Eva B. Helgadóttir og Albert Guðmundsson.
Eva B. Helgadóttir og Albert Guðmundsson. Samsett mynd/Aðsend/mbl.is/Eggert

Lögmaður konunnar sem kærði knattspyrnumanninn Albert Guðmundsson fyrir kynferðisbrot segir það hafa komið á óvart að málið hafi verið fellt niður. Telur hún rétt að skoða hvort niðurstaðan verði borin undir ríkissaksóknara.

„Eins og gefur að skilja hefur þetta mál verið erfitt fyrir minn umbjóðanda. Ekki aðeins framganga mannsins heldur var ekki léttvæg ákvörðun að kæra mann fyrir kynferðisbrot sem hefur tengst fjölskyldu hennar vinaböndum frá því hún var barn,“ segir í yfirlýsingu frá Evu B. Helgadóttur hæstaréttarlögmanni.

Hún segir umbjóðanda sinn hafa talið réttast að vísa ábyrgðinni þangað sem hún ætti heima og látið málið fara hina lögformlegu leið.

„Hún hefur ekki sóst eftir neinu öðru en réttlæti og taldi sér siðferðilega skylt að koma málinu í þann farveg.“

Einbeitir sér að vinna úr áfallinu

Eva segir að konan sé ung og efnileg en hafi orðið fyrir framgöngu sem hún eigi eftir að eyða ævinni í að vinna úr. Albert verði að lifa með eigin framgöngu og hvernig hann hafi kosið að taka ábyrgð á henni.

Réttarkerfið í svona málum sé hannað í kringum réttindi sakborninga en ekki þolendur. Áhrifin séu þau að fórnarlömb kynferðisofbeldis veigra sér frekar við því að leggja fram kæru.

„Í ljósi alvarleika málsins er rétt að skoða hvort niðurstaðan verði borin undir ríkissaksóknara. Hvað sem líður niðurstöðu lögfræðinga um líkur á sakfellingu í sakamáli mun umbjóðandi minn einbeita sér að því að vinna úr áfallinu, sinna sínu námi og huga að framtíðinni,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert