Tiger ekki á meðal þeirra þúsund efstu

Tiger Woods.
Tiger Woods. mbl.is/AFP

Í fyrsta skipti á ferlinum er bandaríski kylfingurinn Tiger Woods ekki á meðal 1.000 efstu á heimslistanum í golfi.

Woods er í 1005. sæti á nýjasta heimslistanum sem gefinn var út í dag. Ástæðan er auðvitað sú að Woods hefur lítið getað tekið þátt í mótum undanfarin ár vegna þrálátra bakmeiðsla en hann sat á toppi heimslistans í 683 vikur í röð.

Woods, sem er 41 árs gamall, hefur unnið 14 risamót á ferli sínum en síðasta mótið sem hann vann var opna bandaríska meistaramótið árið 2008.

Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson er í efsta sæti á heimlistanum, Japaninn Hideki Matsuyama er í öðru sæti, Bandaríkjamaðurinn Jordan Spieth er þriðji, Norður-Írinn Rory McIlroy er fjórði og Spánverjinn Sergio Garcia er í fimmta sætinu.

mbl.is