Ólafía þarf að vakna eldsnemma

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er með á fyrsta risamóti ársins.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er með á fyrsta risamóti ársins. Ljósmynd/LPGA

Kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir skráir nýjan kafla í golfsögu Íslendinga á morgun þegar hún hefur leik á ANA Inspiration mótinu í Rancho Mirage í Kaliforníu.

Mótið er eitt risamótanna fimm í golfi kvenna og verður Ólafía fyrst Íslendinga til að keppa á því. Hún lék á þremur risamótum í fyrra, eða KPMG mótinu, Opna breska meistaramótinu og Evian meistaramótinu. Bestum árangri náði hún á síðastnefnda mótinu þar sem hún hafnaði í 48. sæti.

Ólafía hefur leik á morgun kl. 14.10 að íslenskum tíma, eða kl. 7.10 að staðartíma, en hún er í fyrsta ráshóp. Cindy LaCrosse frá Bandaríkjunum verður með Ólafíu í hóp fyrstu tvo keppnisdagana.

Heildarverðlaunafé á ANA Inspiration er 2,8 milljónir Bandaríkjadala eða sem nemur 283 milljónum króna. Það er hin suður-kóreska Ryu So-yeon sem á titil að verja eftir sigur í bráðabana í fyrra, en hún fékk 405.000 dali fyrir sigurinn, sem í dag jafngildir um 40 milljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert