Á ýmsu gekk hjá Tiger Woods

Tommy Fleetwood á hringnum.
Tommy Fleetwood á hringnum. AFP

Englendingurinn Tommy Fleetwood byrjaði virkilega vel á fyrsta keppnisdegi á Players Championship á TPC Sawgrass-vellinum í Flórída í dag en mótið er með þeim stærri í PGA-mótaröðinni í golfi. Tók Fleetwood forystuna snemma dags en Bandaríkjamaðurinn Keegan Bradley jafnaði í kvöld og eru þeir efstir að loknum fyrsta hring. 

Fleetwood lék á 65 höggum og er á sjö undir pari en hann hefur aldrei sigrað á móti í Bandaríkjunum en er í 13. sæti heimslistans. Fleetwood hefur leikið meira í Evrópumótaröðinni og þar hefur hann til dæmis orðið stigameistari. Fleetwood stimplaði sig vel inn í fyrra sem kylfingur í heimsklassa en hann fór í gegnum niðurskurðinn á öllum risamótunum. Hafnaði í 2. sæti á Opna bandaríska, í 17. sæti á Masters og 12. sæti á The Open Championship. Auk þess vann hann fjóra leiki af fimm í sinni fyrstu Ryder-keppni. 

Bradley byrjaði af miklum krafti í síðustu viku á Bay Hill en missti flugið á síðari 36 holunum. Hann lauk síðasta keppnistímabili vel og hafnaði í 8. sæti á peningalistanum. 

Rory McIlroy virðist líklegur til afreka en hann lék á 67 höggum og fékk engan skolla. Ryan Moore er einnig á 67 höggum en hann átti sannkallað draumahögg á hinni frægu 17. holu, eyjaholunni. Upphafshögg hans flaug neðarlega í stöngina og fór þaðan beint niður í holuna með talsverðum hávaða. Hola í höggi og það á einni frægustu par 3 holu á mótaröðinni. 

Tiger Woods skoðar púttlínuna á 17. flötinni þar sem hann …
Tiger Woods skoðar púttlínuna á 17. flötinni þar sem hann fékk fugl. AFP

Tiger Woods lauk leik á 70 höggum og er því á tveimur undir pari. Hann er í 34. sæti. Á ýmsu gekk hjá honum á hringnum. Fékk sex fugla en fjóra skolla. Fékk hann skolla á 11. holunni sem er par 5 og þar eru sóknarfæri fyrir bestu kylfinga heims. Þar sló Tiger hins vegar annað högg sitt í vatnið og fékk því víti. Tiger var þolinmóður og nældi í fugla á 16. og 17. holunni en lauk leik á skolla á 18. 

Mótið er geysilega vel mannað og erfitt að lesa í stöðuna eftir einungis einn hring. Efsti kylfingur heimslistans Dustin Johnson lék á 69 höggum. Það gerðu einnig Spánverjarnir Jon Rahm og Sergio Garcia sem og sigurvegarinn á Masters í fyrra, Patrick Reed. Sigurvegarinn á Players í fyrra, Webb Simpson, lék á 70 höggum og Jason Day var einnig á 70. 

Margir byrjuðu því mótið ágætlega og eru í baráttunni. Á meðal þeirra sem þurfa að gefa í eru Justin Rose, Ricke Fowler og Phil Mickelson sem allir voru á 74 höggum. Þá léku þeir Henrik Stenson og Jordan Spieth á 75. 

Rickie Fowler náði sér ekki á strik í kvöld.
Rickie Fowler náði sér ekki á strik í kvöld. AFP
mbl.is